03.11.1970
Sameinað þing: 7. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 557 í D-deild Alþingistíðinda. (4177)

20. mál, haf- og fiskirannsóknir

Sjútvrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins í upphafi staðfesta það, að það er rétt, að sjútvrn., og ég hygg fjmrn. einnig, hafa borizt áskoranir um það að halda Hafþóri úti áfram. Að öðru leyti vil ég svara fsp. á þann veg, sem Hafrannsóknastofnunin sjálf hefur lagt mér í hendur. Hennar svör eru á þessa leið:

„Á undanförnum árum hefur Hafrannsóknastofnunin haft til umráða v/s Hafþór og r/s Árna Friðriksson. Hið nýja rannsóknarskip, Bjarni Sæmundsson, verður afhent síðast í nóv., og má reikna með, að það verði komið í fulla notkun um áramótin. Ríkisstj. hefur nú ákveðið að selja m.s. Hafþór, en óákveðið hvenær, en þess í stað eru veittar á fjárlögum næsta árs 8 mill. kr. til leiguskipa. Hafrannsóknastofnunin hefur lagt mikla áherzlu á, að í stað Hafþórs fái hún hentugt skip innan við 100 rúmlestir til rannsókna á grunnmiðum. Er talin mikil þörf fyrir slíkt skip t.d. til rækjuleitar svo og til leitar á nýjum hörpudiskamiðum og rannsóknar á öðrum skelfiski. Haldið mun áfram skipulögðum rannsóknum á útbreiðslu og magni þorsks og uppeldissvæðum, og ef þörf krefur, mun skipið einnig taka þátt í slíkum rannsóknum á magni og útbreiðslu fiskungviðis, sem getið er hér að framan. Einnig eru fyrirhugaðar rannsóknir á þorski við Austur-Grænland og á samhengi hans við þorskinn við Ísland.“

Ég vil svo taka fram að lokum, að enn þá hefur aldrei verið synjað um fé til leitar og rannsókna samkv. till. Hafrannsóknastofnunarinnar.