03.11.1970
Sameinað þing: 7. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í D-deild Alþingistíðinda. (4178)

20. mál, haf- og fiskirannsóknir

Fyrirspyrjandi (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Því miður get ég ekki sagt, að þetta hafi verið neitt svar við fsp., því að ég spurði ekki um það, hvað Hafrannsóknastofnunin vildi leggja til, eftir að búið var að tilkynna henni, að það ætti að selja Hafþór, heldur var ég að spyrja um, hvaða skipaflota hæstv. ráðh. ætlaði að hafa við þessi verkefni næsta ár. En það kom ekki fram hjá hæstv. ráðh., nema það beri að skilja það svo, sem stóð í bréfi Hafrannsóknastofnunarinnar, að það sé ófrávíkjanlega ætlunin að selja Hafþór. En sé svo, þá vil ég fara fram á það við hæstv. ráðh., að sú ákvörðun verði endurskoðuð, og raunar tel ég nú, að það sé ekki heimilt að selja Hafþór nema með samþykki Alþ. Það væri um mjög alvarlega ráðstöfun að ræða, ef hverfa ætti að því ráði að selja Hafþór og leigja í staðinn smáskip til þessarar starfrækslu, af þeirri einföldu ástæðu, að slík skip geta ekki komið að nema hálfu gagni móts við Hafþór. Hafþór er orðinn það vel útbúinn í þessu tilliti, að engir smábátar geta jafnazt á við hann í afköstum í því, sem gera þarf. Auk þess er á honum þrautþjálfuð áhöfn, og það hefur ákaflega mikið að segja, hvort ráð er á slíkri áhöfn til þess að framkvæma þessi verkefni eða hvort það koma að þessu óvanir menn þá og þá. Það er raunar ekki hálft gagn að því að hafa skip og bát á hlaupum samanborið við það að eiga hentugt skip og nota það að staðaldri.

Mér er kunnugt um, að samtök sjómanna leggja í það mikla vinnu að leggja fram rök í þessu máli við hæstv. ríkisstj. um þessar mundir, og ég vil greina frá því, að mér hefur borizt í hendur áskorun og grg., sem send hefur verið frá Skipstjóra- og stýrimannafélaginu Öldunni, en fleiri áskoranir munu hafa borizt hæstv. ráðh., þar sem sýnt er fram á það með alveg óyggjandi rökum, að það er yfirfljótanlegt verkefni fyrir hendi fyrir Árna Friðriksson, Bjarna Sæmundsson og Hafþór og að það væri hið mesta óráð að selja Hafþór. Enn fremur er þeirri skoðun haldið fram, — og þessir menn vita vel, hvað þeir segja, — að smá lausaskip, sem tekin væru í staðinn fyrir Hafþór, mundu tvímælalaust reynast dýrari í rekstri heldur en hann og að þessu enginn sparnaður, en koma að miklu minna gagni. Ég vil benda á það í þessu sambandi, að í fjárlagafrv. mun vera gert ráð fyrir upp undir það jafnhárri fjárhæð til þess að leigja slík aukaskip og útgerð Hafþórs mundi kosta. En engum manni, sem þekkir til, mundi detta í hug, að hægt væri að ná sama árangri með því að fara þannig að.

Ég skal ekki fara lengra út í þetta mál, en mér er vel kunnugt um, að Hafrannsóknastofnunin hefur viljað fá — og ég vil, að menn taki eftir því, — að Hafrannsóknastofnunin hefur viljað fá að halda Hafþóri, hún vill fá að halda honum og telur, að miklu hagkvæmara væri að hafa Hafþór áfram en að taka leigubáta og leiguskip. Enn fremur er mér það vel kunnugt, að bæði Hafrannsóknastofnunin og samtök útvegsmanna og sjómanna hafa sýnt fram á, að verkefnin eru óþrjótandi, þau, sem aðkallandi eru.

Að aldrei hafi verið neitað um að framkvæma neinar rannsóknir, sem menn hafa farið fram á, og það hafi ætíð verið hægt að sinna eftirspurninni eftir þeim, ég ætla hv. þm. að dæma sjálfum um það, hvað muni vera hæft í því, ef ég hef skilið rétt það, sem kom fram í því skjali, sem áðan var lesið. Við vitum mjög vel, alþm., að það vantar stórkostlega á, að hægt hafi verið að sinna þeim óskum, sem hafa komið fram um rannsóknir og þjónustu við fiskiskipaflotann. En ég fer ekki lengra út í það hér, hef kannske líka misskilið það, sem lesið var áðan. En ég legg áherzlu á, að hér er um svo þýðingarmikið málefni að ræða, að ég fer fram á við hæstv. ráðh., að hann láti fara fram alveg hleypidómalausa athugun í samráði við samtök útvegsmanna og sjómanna, áður en fjárlög verða afgreidd, um það, hvað heppilegast sé að gera í þessu. Það væri alveg hræðilegt tjón, ef nú yrði gripið til þess ráðs að selja Hafþór, einmitt þegar við þurfum að stórauka þessar rannsóknir og eigum slíkt afbragðsskip með óvenjulega góðum útbúnaði og þrautþjálfaðri áhöfn.