15.12.1970
Neðri deild: 31. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 600 í B-deild Alþingistíðinda. (418)

170. mál, vegalög

Frsm. (Ásberg Sigurðsson):

Herra forseti. Samgmn. Nd. hefur tekið frv. til athugunar og leggur til, að það verði samþ. Einstakir nm. áskilja sér þó rétt til að flytja brtt. eða fylgja brtt., er fram kunna að koma. Fjarstaddur við afgreiðslu málsins var Guðlaugur Gíslason.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða mikið um þetta mál. Frv. í heild er greinilega til bóta. Ákvæðin um að breyta gerð vegáætlunar og framkvæmdaáætlun sýsluvegasjóðanna eru sjáanlega til bóta og tryggja betur framkvæmd og undirbúning þeirra mannvirkja, sem á að vinna að. Í grg. frv. kemur skýrt fram, að höfuðtilgangur lagabreytingarinnar er að leysa fjárhagsvanda Vegasjóðs, en tekjur hans hafa reynzt lægri en áætlað var, en útgjöldin hins vegar aukizt vegna verðlagsbreytinga. Til þess að ljúka þeim framkvæmdum, sem áætlað var að ljúka samkv. gildandi vegáætlun, er höfuðnauðsyn að auka tekjur Vegasjóðs. Auk þess er nauðsynlegt að afla frekara fjár til nauðsynlegra framkvæmda við þjóðbrautir og landsbrautir víða um land.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða þetta frekar, en vona, að dm. hraði afgreiðslu málsins.