03.11.1970
Sameinað þing: 7. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í D-deild Alþingistíðinda. (4183)

315. mál, endurskoðun gjaldskrár Landssímans

Fyrirspyrjandi (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Á síðasta þingi flutti ég till. til þál. um símagjöld á Brúarlands- og Suðurnesjasvæði, þar sem lagt var til, að bætt yrði úr því misrétti, sem ég tel, að fólk á þessum slóðum búi við í sambandi við símagjöld. Ég tel ekki ástæðu til að endurtaka nú í fsp.-tíma, í hverju þetta misrétti er fólgið, en í umr. um þáltill. kom fram, sem ég reyndar áður vissi, að við tilkomu sjálfvirka símans kynnu víðar að hafa, komið upp mál svipaðs eðlis. Hæstv. samgrh. lýsti því yfir við umr., að vænta mætti samræmingar á gjaldskrám og gjaldsvæðum Landssímans á grundvelli heildarendurskoðunar þessara mála, en taldi sig þá ekki geta um það sagt, hvenær niðurstöðu væri að vænta. Ég tel, að fyrir það fólk, sem hér er um að ræða, sé mjög brýnt að fá leiðréttingu mála sinna og hún eigi að fást sem fyrst. Því hef ég lagt fram fsp. til hæstv. samgrh. um þetta mál. Fsp. þarfnast ekki frekari skýringar. Hún er borin fram til þess að kanna, hvers fólk á þessum svæðum, sem ég hef hér sérstaklega tilgreint, megi vænta um leiðréttingu mála sinna, en fsp. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta, og er á þskj. 20:

„Hvað líður endurskoðun og samræmingu á gjaldskrá og gjaldsvæðum Landssímans, t.d. að því er varðar Suðurnes sem sérstakt gjaldsvæði og gjaldskrá fyrir símtöl milli Reykjavíkur og Brúarlandssvæðisins?“