03.11.1970
Sameinað þing: 7. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 565 í D-deild Alþingistíðinda. (4191)

322. mál, símasamband milli Reykjavíkur og Vesturlands

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég stend hér upp einkum til þess að spara tíma fyrir aðra fsp. og hygg, að það muni teljast til fyrirmyndar nú.

Mér virðist, að hv. fyrirspyrjandi geri lítið úr vandamálum okkar, sem búum í sveitunum, hvað símasamband snertir. Hann gerir hér eingöngu að umtalsefni símakerfið, að því er varðar þá, sem í þéttbýlinu búa. En sannleikurinn er sá, og ég efast ekki um það, að þm. úr dreifbýlinu taka þar undir, að í sveitunum búum við enn þá við hið frumstæðasta kerfi, og ég efast um, að það hafi tekið neinum teljandi breytingum, síðan síminn hélt innreið sína í landið. Það er ekki nóg með það, að maður eigi í erfiðleikum við að ná yfirleitt sambandi við aðra eða jafnvel þá, sem búa á næstu bæjum, heldur er sambandið oft þannig, að lítið heyrist. Það er t.d. ólíkt skýrara, sem maður heyrir sagt, þegar maður nær símasambandi við Ameríku héðan úr Reykjavík, heldur en það, sem fer á milli nokkurra bæja uppi í Borgarfirði.

Hæstv. ráðh. minntist aðeins á, að það stæði til að endurbæta símakerfið að því er varðar sveitirnar, og ég hygg, að mörgum sé forvitni á að fá nánari upplýsingar um það, sem til stendur, því að sannarlega veitir ekki af.