03.11.1970
Sameinað þing: 7. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í D-deild Alþingistíðinda. (4196)

320. mál, Vesturlandsáætlun

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Svar við þessari fsp. hefur verið falið atvinnujöfnunarsjóðsstjórninni að gera. Og frá henni hef ég fengið svo hljóðandi bréf:

„Samkv. beiðni félmrn. vill Atvinnujöfnunarsjóður upplýsa eftirfarandi:

Við gerð landshlutaáætlana hefur það sjónarmið verið ríkjandi, hversu brýn nauðsyn væri á áætlunargerð, og hafa áætlanir verið gerðar í samræmi við það. Í ljós kom, að á Vestfjörðum voru það samgöngumál, er mest þörfnuðust úrbóta, á Norðurlandi atvinnumálin og á Austfjörðum samgöngumálin. Samkv. þessu var fyrst gerð samgönguáætlun fyrir Vestfirði, síðan Norðurlandsáætlun, og nú er unnið að samgönguáætlun fyrir Austfirði. Enn fremur hefur það sjónarmið ráðið áætlanagerðunum, að unnt væri jafnframt að tryggja fjármagn til framkvæmda. Gerð Vesturlandsáætlunar svo og framhaldsáætlunar fyrir atvinnumál, heilbrigðismál og menntamál á Vestfjörðum hefur verið til umr. hjá stjórn Atvinnujöfnunarsjóðs, en enn hefur ákvörðun ekki verið tekin.“

Ég veit ekki, hvort hv. fyrirspyrjanda þykir þetta nóg svar, en þetta hefur verið tekið fyrir hjá stjórn Atvinnujöfnunarsjóðs, og ég vænti, að hann komi bráðlega að Vesturlandi um áætlunargerð, þegar hitt hefur hlotið afgreiðslu, en það hefur verið meining Atvinnujöfnunarsjóðs, að yfirleitt væri ekki nema ein áætlun í gangi í einu í undirbúningi, því að þetta er mikið verk, sem þessu fylgir. En ég vildi vænta þess, að Vesturland kæmi þarna mjög fljótlega.