03.11.1970
Sameinað þing: 7. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í D-deild Alþingistíðinda. (4199)

320. mál, Vesturlandsáætlun

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þessar umr. til muna, en einhvers staðar segir, að misskilningur sé versti skilningur, og hv. fyrirspyrjandi komst þannig að orði, þegar hann var að mæla fyrir því, að gerð yrði Vesturlandsáætlun, að á Norðurlandi hefði þegar verið unnið að stórkostlegum framkvæmdum, eins og hann orðaði það, samkvæmt Norðurlandsáætlun. Ég get ekki hlýtt á þetta án þess að gera við það nokkra aths. Mér er ekki kunnugt um það, að nein Norðurlandsáætlun hafi verið gerð, en hins vegar hefur á vegum Efnahagsstofnunarinnar verið framkvæmd allmikil rannsókn, sem var til þess fallin að koma að notum við gerð Norðurlandsáætlunar, og lagðar fram ýmiss konar mjög fróðlegar skýrslur í þessu sambandi. En áætlunin sjálf hefur ekki verið gerð, og ætla ég, að mér sé nokkuð um þetta kunnugt, því að ég var staddur á fjórðungsþingi Norðlendinga í fyrrahaust, þar sem þessar skýrslur og rannsóknir lágu fyrir, en þar var hins vegar ekki um áætlun að ræða í þeim skilningi. Hins vegar hefur Atvinnujöfnunarsjóður til ráðstöfunar lánsfé, sem aflað hefur verið til þess að greiða fyrir framkvæmdum Norðurlandsáætlunar, og mun vera búið að lána eitthvað af þessu fé, sem ég hygg, að megi kannske frekar skoðast sem bráðabirgðalán að svo stöddu. Þetta er erlent lán, sem mun vera lánað í erlendum gjaldeyri eða með þeim skilyrðum við endurlánun, sem tíðkast á erlendu lánsfé í seinni tíð. Ég vil aðeins taka þetta fram til þess að koma í veg fyrir þann misskilning hjá hv. þm., að á Norðurlandi sé runnin upp einhvers konar gullöld vegna Norðurlandsáætlunar og hinum dýra málmi stráð þar út um víðan völl. Það er alls ekki þannig.