03.11.1970
Sameinað þing: 7. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í D-deild Alþingistíðinda. (4200)

320. mál, Vesturlandsáætlun

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, var að leiðrétta misskilning, sem kom fram hjá hv. 4. landsk. í sambandi við afgreiðslu atvinnujöfnunarsjóðsstjórnar á áætlun fyrir Vesturland. Það er mikill misskilningur hjá hv. 4. landsk. þm., að það sé farið með málin eftir því, hver hefur flutt þau. Heldur er það forsenda fyrir því, að það sé unnið að þeim málum á skipulegan hátt, eins og það er t.d. nauðsynlegt til þess að bæta símakerfi, að aðalkerfið sé bætt, ef útlínurnar eiga að njóta. Þetta væri nauðsynlegt, að hv. þm. gerði sér grein fyrir. Þegar þetta mál var afgreitt hér á hv. Alþ., Vesturlandsáætlunin, þá hafði það áður verið rætt í atvinnujöfnunarsjóðsstjórninni, eins og ég upplýsti þá. Þá var verið að vinna að Norðurlandsáætlun og er verið að vinna að henni enn þá. Nýlega hafa þessar áætlanagerðir verið til umr. hjá sjóðsstjórninni, og það er nú verið að gera sérstaka athugun á því, hvernig hægt sé að koma þeim málum sem bezt og haganlegast fyrir. Á þann hátt verður tekið á þessu máli eins og öðrum þeim málum, sem til sjóðsstjórnarinnar koma, að það er reynt að leysa úr þeim á sem hagkvæmastan hátt.