10.11.1970
Sameinað þing: 9. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 568 í D-deild Alþingistíðinda. (4205)

44. mál, læknisþjónusta í strjálbýli

Fyrirspyrjandi (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að mörg af læknishéruðum landsins, einkum þau, sem fámenn eru og strjálbýl, hafa um mörg undanfarandi ár verið læknislaus, sum lengst af og önnur algerlega árum saman. Úr þessu er reynt að bæta, a.m.k. sums staðar, með heimsóknum lækna úr öðrum héruðum, og er slíkt algerlega ófullnægjandi, og þá ekki sízt þar á landinu, sem vegir teppast af snjó á vetrum, en enginn reglubundinn snjómokstur fer fram á þjóðbrautum. Með nýmælum í löggjöf hafa verið gerðar tilraunir til að fá lækna til að setjast að í hinum læknislausu héruðum, en þær tilraunir hafa lítinn árangur borið enn, því miður, og má ekki við svo búið standa. Hinn 22. apríl s.l. var á Alþ. samþ. svo hljóðandi þáltill. um bætta læknisþjónustu í strjálbýli:

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að athuga möguleika á því að fá lækna frá nálægum löndum, fyrst og fremst hinum Norðurlöndunum, til þess að gegna um lengri eða skemmri tíma læknisþjónustu í einstökum læknishéruðum, sem nú eru læknislaus.“

Enn fremur var sama dag samþ. þáltill. um endurskoðun á ýmsum þáttum heilbrigðislöggjafarinnar, þar sem heilbrmrh. var falið að skipa fimm manna nefnd til að framkvæma slíka endurskoðun og þá m.a. með það fyrir augum, „að læknar fáist til starfa í þeim héruðum, sem nú eru læknislaus“, eins og það er orðað í till. Í nefndinni eiga að vera landlæknir eða ráðuneytisstjóri heilbrmrn., tveir menn frá Læknafélagi Íslands, annar héraðslæknir og hinn sjúkrahúslæknir, einn maður frá læknadeild Háskólans og einn frá Sambandi ísl. sveitarfélaga. Nefndinni var að vísu ætlaður frestur til að skila áliti fram til 1. marz s.l., en þar sem hér er um mjög aðkallandi vandamál að ræða, varðar fsp. mín einnig þessa þál. Ég hef leyft mér að spyrja:

„Hvað líður framkvæmd tveggja þál. frá 22. apríl 1970, um bætta læknaþjónustu í strjálbýli og um endurskoðun á ýmsum þáttum heilbrigðislöggjafar?“