10.11.1970
Sameinað þing: 9. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í D-deild Alþingistíðinda. (4206)

44. mál, læknisþjónusta í strjálbýli

Sjútvrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Varðandi fyrra atriði fsp. þá hefur hv. fyrirspyrjandi lesið þál. og óskað að endurtaka hana hér. Svör mín við þessum fsp. tveim verða að öðru leyti á þennan veg: Rn. sendi landlækni þál. til umsagnar með bréfi dags. 14. maí 1970, og í svarbréfi hans frá 21. júlí 1970 segir svo m.a.:

„Ég tel sjálfsagt að ganga ekki fram hjá þessari till., þó að ég sé ekki bjartsýnn á árangur. Í grannlöndum okkar er fremur skortur á læknum en hitt. Í Danmörku er hlutfallslegur læknafjöldi miðað við íbúafjölda svipaður og hér á landi en enn þá minni í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Í hinum þrem síðast töldu löndum hefur verið við að etja sams konar örðugleika og hér á landi á því að fá lækna til að gegna störfum í norðlægum héruðum, og hafa þessar þjóðir sætt sig við miklu minni læknisþjónustu þar en hér eru gerðar kröfur til. Norðan til í Noregi mun t.d. algengast, að 2–3 þús. manns komi á hvern héraðslækni, og í Finnlandi er þessi tala allmiklu hærri. Ekki eru heldur miklar líkur til, að vænlegra yrði að leita út fyrir Norðurlönd, þegar af þeirri ástæðu, er ég greindi frá í upphafi. Þá er þess að gæta, að erlendir læknar geta naumast gegnt læknisstörfum hér á landi án þess að læra málið til nokkurrar hlítar, svo að þeir geti nokkurn veginn skilið sjúklinga sína og gert sig sjálfa skiljanlega, en það krefst að sjálfsögðu verulegrar fyrirhafnar, sem er ekki líklegt, að margir fáist til að leggja á sig. Í þessu sambandi skal þess getið, að vegna mikils fjölda lækna í Vestur-Þýzkalandi, þar sem þeir eru talsvert fleiri en tíðkast á Norðurlöndum, hef ég nú kynnt mér möguleika á að útvega lækna þaðan. Ræddi ég málið við fulltrúa heilbrigðisstjórnarinnar, dr. Josef Stralau, landlækni, sem og fulltrúa læknasamtakanna þar, dr. K. H. Kraus. Kom strax í ljós, að kröfur vesturþýzkra lækna vegna hins háa gengis á gjaldmiðli þeirra eru slíkar, að ég tel ráðningu þeirra í fámenn læknishéruð hér á landi vart koma til greina.“

Þetta voru orð landlæknis. Enn fremur ráðlagði landlæknir, að utanrrn. yrði falið að hafa samband við heilbrigðisstjórnir Norðurlanda og e.t.v. fleiri landa og hlera álit þeirra í þessum efnum. Með bréfi 27. júlí s.l. sendi heilbr.- og trmrn. utanrrn. afrit af bréfi landlæknis og óskaði eftir því, að utanrrn. kannaði möguleika á því hjá heilbrigðisstofnunum Norðurlanda og þeim aðilum öðrum, sem þeir kynnu að telja ástæðu til, hverjir möguleikar væru á því að fá hingað til lands erlenda lækna til starfa í læknishéruðum. Aðeins eitt svar við þessu bréfi hefur borizt frá utanrrn. Og það svar barst í bréfi dags. 19. okt. 1970, og var sent með samrit af bréfi sendiráðsins í Osló ásamt fylgiskjali, sem var bréf frá Helsedirektoratet í Osló. Í bréfi sendiráðsins í Osló segir svo:

„Eftir viðtöku ofanritaðs bréfs utanrrn. hafði sendiráðið samband við Helsedirektoratet hér og sendist hjálagt ljósrit af svari þess dags 17. þ.m. Eins og sjá má, virðast ekki miklir möguleikar á að fá norska lækna til Íslands. Reyna mætti e.t.v. að auglýsa eftir læknum á þann hátt, sem um er getið í bréfinu. Sendiráðið er að sjáifsögðu reiðubúið að aðstoða í því efni, ef óskað er.“

Í bréfi Helsedirektoratet í Osló, sem undirritað er af Karl Evang, landlækni í Noregi, segir svo í íslenzkri þýðingu:

„Með tilvísun til bréfs 21. ágúst 1970 frá hinu háa sendiráði, staðfestist, að hér á landi hefur einnig um árabil verið við að etja sama vandamál, þegar um er að ræða mönnun og útvegun lækna í strjálbýlinu. Enda þótt fjöldi starfandi lækna aukist stöðugt á seinni árum, þá er stöðugt almennur skortur lækna í hlutfalli við eftirspurn. Eins og er, þá verður að telja möguleika á því að fá norska lækna til að sækja um í strjálbýl héruð á Íslandi mjög litla. Helsedirektoratet hefur fyrir sitt leyti ekki tök á því að útvega lækna til þjónustu þessarar tegundar. Ef reynt yrði að fá lækna til þess að starfa á Íslandi, yrði að fara sömu leið og einstök sænsk byggðarlög hafa gert til þess að fá norska lækna í héraðslæknisstöður í Svíþjóð, þ.e. að auglýsa þær stöður, sem um er að ræða, í blaði norsku læknasamtakanna.“

Eftir móttöku þessa bréfs hefur heilbrmrn. gert ráðstafanir til þess, að utanrrn. komi á framfæri auglýsingu um lausar héraðslæknisstöður á Íslandi í því blaði, sem Helsedirektoratet nefndi.

Niðurstaðan af þessu verður því sú, að þál. hefur verið framkvæmd svo sem kostur hefur verið, en árangur orðið sá, er landlæknir gerir ráð fyrir í upphaflegu bréfi sínu. Virðast því miður litlar líkur á því að fá útlenda lækna til starfa í héruðum á Íslandi.

Varðandi síðari hluta fsp. hv. fyrirspyrjanda og þeirrar þál., sem samþ. var 22. apríl s.l., vildi ég segja þetta: Aðilum þeim, er um ræðir í þál., var þegar skrifað og þeir beðnir um að tilnefna menn, en nefndin var ekki skipuð fyrr en í októbermánuði s.l. og hefur því nýlega hafið störf. Og ástæðan var m.a. sú, að á tilnefningum stóð. Í nefndinni eiga sæti ráðuneytisstjóri heilbrmrn., sem er formaður nefndarinnar, læknarnir Ásmundur Brekkan og Brynleifur Steingrímsson, tilnefndir af Læknafélagi Íslands, prófessor Tómas Helgason, tilnefndur af læknadeild Háskóla Íslands, og Megnús Guðjónsson, tilnefndur af Sambandi ísl. sveitarfélaga. Lögð hefur verið á það megináherzla, að nefndin hraðaði störfum sínum, og er gert ráð fyrir því, að hún skili áliti eða till. sínum, eins og þál. gerir ráð fyrir, fyrir 1. marz n.k.