10.11.1970
Sameinað þing: 9. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í D-deild Alþingistíðinda. (4208)

44. mál, læknisþjónusta í strjálbýli

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Mér er meinilla við að taka þátt í umr. um annarra manna fsp., og eiginlega liggur við, að ég biðji hæstv. forseta afsökunar á því að notfæra mér þann rétt, sem til þess er í þingsköpunum. En ég get ekki stillt mig um að segja hér nokkrar setningar um þessi læknamál dreifbýlisins, vegna þess að þau eru þannig vaxin, að segja má, að allt, sem verið er að reyna að gera til þess að efla byggð um landið, sé nálega unnið fyrir gýg, ef ekki verður hægt að hafa þar sómasamlega læknisþjónustu. Málið er því alvarlegt og hefur verið einn versti höfuðverkur manna úti um land og þm. undanfarin ár. Margt hefur verið gert til þess að reyna að bæta úr, en ekkert af því reynzt fullnægjandi.

Ég stóð upp til að koma skoðun minni á framfæri við hæstv. ráðh. heilbrigðismála og biðja hann að athuga þá hlið á þessu máli. Það er sem sé alveg bjargföst sannfæring mín, að það sé ómögulegt að leysa þetta mál öðruvísi en að útskrifa fleiri lækna. Það er gersamlega vonlaust að leysa þetta öðruvísi. Það eru einfaldlega of fáir læknar, sem gefa sig að því að stunda lækningar á Íslandi. Nú segja sumir kannske: Hvað þýðir að útskrifa fleiri lækna, þegar þeir fara allir til útlanda? En þetta er alls ekki rétt mælt. Við höldum alltaf vissri prósentu af þeim læknum, sem eru útskrifaðir hér. Ég er alveg sannfærður um það eftir að hafa skoðað þetta mál árum saman og m.a. talað um þetta við fjölmarga lækna eldri og yngri, að þarna liggur lausnin. Það er ekki nóg að gera vel við læknana, eins og undanfarið hefur verið unnið að. Það er ekki nóg. Læknarnir verða að vera til.

Ég fer fram á það við hæstv. ráðherra og stjórnina alla að láta endurskoða læknadeildina við Háskólann og breyta henni þannig, að hún útskrifi fleiri lækna. A hverju stendur? Eru svona fáir Íslendingar hæfir til þess að verða læknar? Það þarf ekki að segja manni, að svo sé. Það kemur ekki til. Er það þá húsnæðisskortur deildarinnar, sem veldur því, að svona fáir læknar koma til starfa? Eða hvað er að?

Ég vil biðja hæstv. ráðh. um að láta ganga í þetta mál. Ég bið enn afsökunar á því, að ég fór að sletta mér fram í fsp. annars þm., en ég gat ekki annað en notað þetta tækifæri til þess að koma þessu á framfæri. Í raun og veru sparar það tíma að koma þessu á framfæri við hæstv. ráðh. Ég bið hann að taka eftir þessu, og ég er alveg sannfærður um, að það eru fleiri en ég, sem eru þessarar skoðunar. Fjöldamargir af yngri læknunum eru þessarar skoðunar og hafa miklar áhyggjur af þessu og þegnlegan vilja til þess að bæta úr þessu. Það verður að endurskoða læknadeildina með það fyrir augum, að hún útskrifi fleiri lækna. Annars verður þetta áfram alveg eins og að lemja sjóinn.