10.11.1970
Sameinað þing: 9. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í D-deild Alþingistíðinda. (4210)

44. mál, læknisþjónusta í strjálbýli

Sjútvrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Ég get verið þeim hv. þm., sem tekið hafa til máls eftir ræður okkar hv. fyrirspyrjanda, efnislega algerlega sammála. Það er nauðsyn á því, að breytingar verði á námstilhögun í læknadeild Háskólans, ef útskrifa á fleiri lækna eða örar en gert hefur verið, en um leið yrði það þá að einhverju leyti eitthvað snöggsoðnara nám, kannske ekki alveg eins ítarlegt og það er í dag. Þessi skoðun, sem ekki er ný, mætir ákaflega mikilli andstöðu innan sjálfrar læknastéttarinnar. Þeir segja: Það hefur aðeins ein þjóð reynt þetta áður, Þjóðverjar eftir síðustu styrjöld, þegar þeir voru í læknahraki þar, eins og við erum á okkar hátt hér í ákveðnum landshlutum. Og þeir segja, að þar sé reynslan sú, að Þjóðverjar muni aldrei byrja á þessu aftur, því að þar séu nánast komnar tvær tegundir lækna, önnur, sem er minna menntuð, og hin, sem er meira menntuð. Sé þetta mjög óæskilegt ástand. Þetta er þeirra skoðun, sem barizt hafa gegn því, að læknanámið yrði að einhverju leyti stytt, til þess að hægt væri að auka læknafjöldann með það fyrir augum eða í von um það, að þeir læknar færu frekar út á land og til læknisþjónustu við landsbyggðina. Ég neita því ekki heldur, að meðal almennings er þessi skoðun líka til. Hvers vegna skyldi fólkið úti á landsbyggðinni fá einhverja annars flokks menntunar lækna til sín? (Gripið fram í.) Nei, ég mætti kannske ljúka þessu máli mínu. Ég tel, að þeir hv. þm., sem tóku til máls um þetta, hafi ekki óskað eftir því að fá minna menntaða lækna út á landsbyggðina. Ég er nokkurn veginn viss um það af fyrri ræðum þeirra um þessi mál. Vandinn er því sá, hvort hægt sé með einhverjum ráðum að breyta fyrirkomulagi læknadeildarinnar þannig, að hún framleiði meira af læknum en hún gerir í dag. Er þetta ekki mergurinn málsins? Þetta er mergurinn málsins. Ég lýsti því yfir við þessar umr. hér á hv. Alþ. í fyrra, að ég mundi fyrir mitt leyti vilja reyna að beita mér fyrir því, að slík breyting ætti sér stað, og sú yfirlýsing mín stendur enn óbreytt.