10.11.1970
Sameinað þing: 9. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 573 í D-deild Alþingistíðinda. (4215)

316. mál, raforka til upphitunar

Fyrirspyrjandi (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Eins og hv. þm. er kunnugt, þá hefur hér á hinu háa Alþingi oftar en einu sinni á undanförnum árum verið rætt um möguleika á notkun rafmagnsupphitunar í meira mæli en tíðkazt hefur, og víða hefur verið rætt um þetta mál á opinberum vettvangi. Víða hafa rafveitur selt rafmagn til upphitunar í smáum stíl, og mun þá helzt vera um afgangsraforku að ræða, sem ekki þarf að nota til annars, og á sveitabæjum, þar sem komið hefur verið upp tiltölulega stórum vatnsaflsstöðvum til heimilisnota, er upphitun með rafmagni sjálfsögð. En spurningunni um það, hvort almenn rafhitun geti orðið svo hagkvæm fyrir notendur og rafmagnsveitur, að hægt sé að reka stór raforkuver á þeim grundvelli, að verulegur hluti eða kannske mikill meiri hluti orkunnar sé seldur til hitunar, er enn ósvarað og þá m.a., hvort gerlegt sé að framkvæma slíka upphitun frá samveitum í dreifbýli. Þó að notaðir verði þeir möguleikar til upphitunar frá jarðhitasvæðum, sem hagkvæmir eru, þarf upphitun víða um land að fara fram á annan hátt, og er sú upphitun meiri háttar gjaldeyrismál, en verð á innfluttu eldsneyti hefur farið mjög hækkandi a.m.k. í íslenzkum krónum í seinni tíð. Það mundi greiða mjög fyrir hinum stærri virkjunum sums staðar á landinu, ef hagkvæmt reyndist að nota mikinn hluta orkunnar til upphitunar og skapa þannig markað fyrir hana. Nú hefur mér verið tjáð, að á vegum raforkumálastjórnarinnar hafi undanfarið verið unnið að víðtækri rannsókn á möguleikum á notkun raforku til upphitunar, og vil ég nú óska eftir vitneskju um það, hvað þeirri rannsókn líði, hvort niðurstaða hennar liggi fyrir eða sé væntanleg innan skamms og hvort hæstv. ráðh., sem fer með raforkumál, geti í sambandi við þessa rannsókn gefið einhverjar nýjar upplýsingar varðandi upphitun með rafmagni. Þess vegna hef ég leyft mér að leggja fram fsp. þá, sem hér liggur fyrir, og ég veit, að margir hafa áhuga á þessu máli. En fsp. hljóðar svo:

„Hvað líður rannsókn, sem unnið hefur verið að, á möguleikum til notkunar raforku til upphitunar?“