10.11.1970
Sameinað þing: 9. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í D-deild Alþingistíðinda. (4216)

316. mál, raforka til upphitunar

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Iðnrn. hefur aflað upplýsinga hjá rannsóknarnefnd hitunarmála, sem er á vegum Orkustofnunar, og yfirlit það, sem okkur hefur borizt, er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Haustið 1969 skipaði tækninefnd Orkustofnunar nefnd manna til að rannsaka hitunarmál húsa hér á landi. Í skipunarbréfi nefndarinnar dags. 3. des. 1969 segir svo:

„Hlutverk rannsóknarnefndar hitunarmála skal vera að rannsaka og bera saman mismunandi orkugjafa til hitunar húsa á Íslandi í því skyni að varpa ljósi á, við hvers konar aðstæður hver einstakur orkugjafi sé hagkvæmastur.“

Í nefndinni eiga sæti fulltrúar frá Orkustofnun, Hitaveitu Reykjavíkur, Efnahagsstofnun, Sambandi ísl. rafveitna, Landsvirkjun og Rafmagnsveitum ríkisins. Auk þess tilnefna olíufélögin þrjú í sameiningu einn fulltrúa í nefndina. Formaður rannsóknarnefndarinnar er Jakob Björnsson deildarverkfræðingur hjá Orkustofnun. Nefndin hefur einn mann, ritara, í fullu starfi. Því starfi gegnir Sigríður Ásgrímsdóttir verkfræðingur. Hitunarmál eru geysilega margslungin mál. Þess vegna var það fyrsta verkefni nefndarinnar að skilgreina verkefni sín nánar, skipa þeim niður og ákveða, hvernig vinna skyldi að þeim. Um þetta hélt fullskipuð rannsóknarnefnd nokkra fundi undir árslok 1969 og snemma á þessu ári. Var niðurstaðan sú, að reynt yrði að taka fyrst fyrir:

1. Hitun húsa í þéttbýli með olíu, jarðhita eða raforku.

2. Hitun húsa í strjálbýli með olíu eða raforku. Stefnt skyldi að því að vinna að þessu hvoru tveggja samtímis. Ákveðið var að biðja Rafmagnsveitur ríkisins að taka að sér seinni liðinn í samvinnu við ritara og formann. Var þeirri málaleitan mjög vel tekið, en vegna mikilla anna hjá Rafmagnsveitum ríkisins og skorts á mannafla hefur aðeins að litlu leyti verið hægt að vinna að þessum lið enn þá. Fyrri liðurinn var falinn í hendur sérstakri undirnefnd tveggja manna ásamt ritara og formanni, en bæði Hitaveita Reykjavíkur og Rafmagnsveita Reykjavíkur hafa tekið mjög vel í beiðni um aðstoð við verkið. Undirnefnd hefur haldið allmarga fundi um hitun í þéttbýli. Var ákveðið að vinna það verk með því að gera með aðstoð arkitekts líkan af þéttbýlishverfi, er athugunin skyldi framkvæmd á. Með líkani er hér átt við nokkuð einfaldað skipulag hugsaðs þéttbýlishverfis, þar sem meginatriðin kæmu fram, þau, er ætla má, að mestu ráði um hitunarkostnaðinn. Leitað var aðstoðar Skúla Norðdahls arkitekts um gerð líkansins. Snemma í sumar skilaði hann lauslegum uppdrætti af 5 þús. manna bæjarhverfi. Í hverfinu eru einbýlishús af tveimur gerðum, einbýlishús í og II, raðhús og fjölbýlishús. Tilgangurinn með því að taka með mismunandi tegundir er sá að kanna, hvaða áhrif þéttleiki byggðarinnar hefur á hitunarkostnaðinn.

Næsta stigið er að áætla dreifingarkostnað jarðhita annars vegar og raforku hins vegar í fyrsta lagi um einbýlishúsahverfi I, í öðru lagi einbýlishúsahverfi II, í þriðja lagi raðhúsahverfi og í fjórða lagi fjölbýlishúsahverfi. Í þessu efni verður mjög stuðzt við reynslutölur frá Hitaveitu og Rafmagnsveitu Reykjavíkur. En mikillar aðgæzlu er þörf, svo að grundvöllur reynslutalnanna frá hitaveitu annars vegar og rafveitu hins vegar sé sambærilegur. Að öðrum kosti verður samanburður jarðvarmahitunar og rafhitunar villandi eða beinlínis rangur. Út frá þessu fæst, hvað jarðhitinn annars vegar og raforkan hins vegar má kosta inn í dreifikerfið í viðkomandi hverfi, til þess að kostnaðarjöfnuður fáist við hitun með olíu. Sé þetta leyfilega verð síðan borið saman við vinnslu- og aðflutningskostnað jarðhita og raforku, fæst beinn mælikvarði á samkeppnisaðstöðu þessara tveggja innlendu orkugjafa við olíu.

Vitanlegt er, að vinnslu- og aðflutningskostnaðurinn er misjafn eftir því, hvar er á landinu. Þetta á einkum við um jarðhitann, en aftur á móti er þess að vænta, að dreifingarkostnaður um algerlega sams konar byggð sé svipaður hvar sem er. Því var ákveðið að skilja á milli dreifingarkostnaðar annars vegar og vinnslu- og aðflutningskostnaðar hins vegar, til þess að niðurstöður athugunarinnar yrðu notaðar hvar sem er á landinu.

Vinna við áætlun dreifingarkostnaðar raforku og jarðhita hófst nálægt miðju sumri. Sumarfrí og sumarannir hjá bæði Hitaveitu og Rafmagnsveitu töfðu verkið framan af. Búast má við, að því ljúki ekki fyrr en upp úr miðjum vetri. Þá þarf nefndin að ræða niðurstöðurnar, og síðan þarf að ganga frá skýrslu. Hennar er ekki að vænta, sýnist mér, fyrr en á næsta sumri. Því er ekki að leyna, að verkið gengur hægar en æskilegt er. Því veldur framar öllu öðru skortur á mannafla. Bæði Hitaveitan og Rafmagnsveitan hafa tekið málaleitan nefndarinnar um aðstoð sérstaklega vel, en allur mannafli beggja, ekki hvað sízt verkfræðingar og tæknifræðingar, eru önnum kafnir við sín reglubundnu störf. Svona verk verða þeir því að vinna í ígripum. Á þann hátt vinnst verk af þessu tagi ákaflega hægt, rannsóknir eru mjög illa til ígripavinnu fallnar. AS mínum dómi þyrftu a.m.k. fjórir verkfræðingar og tæknifræðingar alls að riturum meðtöldum að geta gefið sig alveg að svona verkefni um nokkurra mánaða skeið, í sex mánuði eða svo. Ég hef hugleitt nokkuð möguleikann á því að fá verkið í hendur ráðgjafarverkfræðingum. Gallinn er sá, að þeir virðast flestir eða allir störf um hlaðnir sem stendur, þannig að ekki virðist neinn augljós ávinningur í því. Að mínum dómi kemur ekki til mála að hraða verkinu á þann hátt að draga úr vandvirkni við það. Illa unnin rannsókn af þessu tagi getur verið verri en engin. Eina ráðið til að hraða rannsókninni er að fá til hennar meiri mannafla, verkfræðinga og tæknifræðinga.“

Undir þetta ritar Jakob Björnsson, sem var, eins og fram kom í skýrslunni, formaður þessarar rannsóknarnefndar, Jakob Björnsson hjá Orkustofnuninni.

Ég þarf engu við þetta að bæta öðru en því, að iðnrn. hefur þegar ákveðið af sinni hálfu að taka til sérstakrar meðferðar og athugunar tiltæk ráð til þess að hraða þessu verki, hraða þeim rannsóknum og þeim athugunum, sem vikið er að og gerð er grein fyrir, af hverju hafa ekki gengið hraðar fram að þessu en fram hefur komið í því, sem ég hef lesið.