10.11.1970
Sameinað þing: 9. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 579 í D-deild Alþingistíðinda. (4228)

83. mál, sjónvarpsmál

Fyrirspyrjandi (Jón Kjartansson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 86 að leggja fram svo hljóðandi fsp.:

„Hvenær má vænta þess, að sjónvarp nái til allra hreppa Húnavatnssýslna og Skagafjarðarsýslu, þannig að gagn sé að?“

Íbúar þessara sýslna eru mjög óánægðir, hvað snertir móttöku sjónvarps, og vil ég í fáum orðum lýsa, hvernig ástandið er í þessum efnum í þessum sýslum. Í forsíðufrétt Vísis segir svo, með leyfi hæstv. forseta, um sjónvarpsmál Skagfirðinga:

„Skagfirðingar efla nú með sér samtök til þess að standast rukkanir Ríkisútvarpsins fyrir sjónvarpsgjöldum. Hafa þeir við orð að borga ekki afnotagjöldin af tækjum sínu m, þar sem útsendingar sjónvarpsins sjást sjaldan og illa á skerminum. Reyndar eru skilyrðin breytileg frá degi til dags, eins og veðráttan, en sárasjaldan fá Sauðkræklingar og sjónvarpsáhorfendur í framsveitum Skagafjarðar skýra mynd á skerminum. Safnað hefur verið undirskriftum með áskorunum til bæjarstjórnar um að gera eitthvað í málinu. Neytendasamtökin hafa verið beðin aðstoðar og fleiri ráðstafanir gerðar. Á Sauðárkróki er sjónvarpsloftnet á hverju húsi að heita má, þótt að litlu gagni komi. Endurvarpsstöðin á Heinabergi í Hegranesi virðist ekki þjóna því hlutverki, sem henni er ætlað, en ekki hefur tekizt að komast fyrir orsakir þess enn sem komið er. Meðan svo er, vilja menn ógjarnan borga full gjöld af tækjum sínum. Það væri að kaupa köttinn í sekknum.“

Þetta er svipmynd af ástandinu eins og það er í Skagafirði, en þó vil ég bæta hér við, að í tveimur austustu hreppum Skagafjarðar sést sjónvarpið alls ekki og mjög illa í þeim þriðja, í Sléttuhlíð. Í sambandi við ástand þessara mála í A.-Húnavatnssýslu er þá sögu að segja, að í Skagahreppnum er nú ekkert tæki, það er ekki komið rafmagn þangað enn. En í Höfðahreppnum eru sumir ánægðir, aðrir telja þetta aðeins sæmilegt. Í Vindhælishreppi er ekki heldur gott ástand, en svona sæmilega viðunandi, svo þess sé getið, sem er sæmilegt. Í Engihlíðarhreppnum er ástandið allsæmilegt um Refasveitina, en slæmt fram um Langadalinn. Í Bólstaðarhlíðarhreppnum sést mjög illa eða nánast sagt alls ekki. Í Svínavatnshreppnum sést, en ekki í Blöndudal, en utar illa, svo að texti er illlæsilegur. Í Torfalækjarhreppnum, sem er næst Blönduósi, sést víða vel og prýðilega á Blönduósi. En þar er sendir á staðnum, sem áhugamenn komu upp. Í Sveinsstaðahreppi sést mjög misjafnt og hvergi vel, og í Ashreppi sést illa að austanverðu, í Vatnsdalnum, en að vestan alls ekki. Þannig er ástandið í A.-Húnavatnssýslu.

Í V.-Húnavatnssýslu er ástandið þannig, að Hvammstangabúar og næstu nágrannar hafa notað bráðabirgðastöð, sem nokkrir áhugamenn keyptu á sínum tíma af Landssíma Íslands, en ég hygg, að Landssíminn sé nú búinn að kaupa hana aftur. Þessir sömu áhugamenn komu henni fyrir í Helguhvammi nokkru ofan við þorpið, og útsendingar úr þessari stöð eru yfirleitt nokkuð góðar, en ná til mjög takmarkaðs svæðis. Á austanverðu Vatnsnesi og í norðanverðum Víðidal hafa notendur sjónvarps horft á myndina frá bráðabirgðastöð við Blönduós, en á öðrum stöðum í héraðinu hafa menn reynt með misjöfnum árangri að ná myndinni beint frá Skálafelli. Sums staðar hefur þetta tekizt allsæmilega, en annars staðar og það nokkuð víða án árangurs. Með tilliti til þess, hvernig ástandið er á þessum stöðum í sjónvarpsmálum, hef ég lagt fram þá spurningu, sem ég las hér í upphafi máls míns.