10.11.1970
Sameinað þing: 9. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 580 í D-deild Alþingistíðinda. (4229)

83. mál, sjónvarpsmál

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í Húnavatnssýslum er verið að byggja tvær aðaldreifistöðvar, á Hnjúkum við Blönduós og á Hrútafjarðarhálsi. Þær munu leysa af hólmi bráðabirgðastöðvar, sem hingað til hafa verið í notkun í sýslunum, og mun þetta stækka sjónvarpssvæðið verulega og bæta móttökuskilyrðin. Í Skagafjarðarsýslu hafa komið fram ýmis vandamál, viðtakan á Eggjum varð mun erfiðari en ráð hafði verið fyrir gert, m.a. vegna ísingar, sem breytti eiginleikum viðtökuloftneta. Úr þessu hefur nú verið bætt. Komið hefur í ljós, að truflanir frá útlöndum eru tíðari en spáð hafði verið. Og í þriðja lagi hefur sendirinn í Hegranesi bilað alloft. Nú er væntanlegur verkfræðingur frá fyrirtækinu, sem seldi sendinn til landsins, til þess að skipta um vandgæfustu hluti sendistöðvarinnar. Truflanir frá erlendum stöðvum verður hins vegar ekki unnt að ráða við fyrr en örbylgjukerfi hefur verið komið upp. Auk þeirra aðalstöðva, sem ég nefndi, er gert ráð fyrir allmiklu minni endurvarpsstöðvum fyrir þau byggðarlög, sem ekki ná aðalstöðvunum, og verða þær stöðvar settar á framkvæmdaáætlanir næstu ára, eftir því sem efni og ástæður leyfa.