10.11.1970
Sameinað þing: 9. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 580 í D-deild Alþingistíðinda. (4230)

83. mál, sjónvarpsmál

Fyrirspyrjandi (Jón Kjartansson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka hæstv. menntmrh. fyrir svörin, en ég er ekki alls kostar ánægður með þau, mér finnst þau ekki alveg nógu skýr. Spurt var, hvenær vænta megi þess, að sjónvarpið nái til allra hreppa Húnavatnssýslna og Skagafjarðarsýslu, þannig að gagn sé að. Það er upplýst, að verið sé að vinna að þessu, en mig mundi fýsa, ef það væri mögulegt, að fá einhverja tímaáætlun. Verður þessum framkvæmdum lokið fyrir áramót eða verður það í byrjun næsta árs eða síðari hluta næsta árs, eða dregst það fram til 1972?