10.11.1970
Sameinað þing: 9. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 580 í D-deild Alþingistíðinda. (4236)

318. mál, bygging fæðingar- og kvensjúkdómadeildar við Landsspítalann

Sjútvrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi hefur lesið fsp. og því óþarft að endurtaka þær. Sem uppistöðu í svör hef ég aflað mér eftirfarandi upplýsinga:

1. Verksamningur um grunn fæðingardeildarinnar, akbrautir, bílastæði o.fl. var undirritaður 22. maí 1969. Skilafrestur verksamningsins var 14 vikur eða til septemberloka, þegar tekið er tillit til verkfalla í vor. Verkið er nú langt komið, en ekki enn að fullu lokið. Vinna við útboðs- og vinnuteikningar er langt komin, og er gert ráð fyrir að bjóða bygginguna út í næsta mánuði, miðað við að húsið verði tilbúið undir tréverk. Standist sú áætlun, ætti deildin að vera komin á það byggingarstig á miðju ári 1972. Til þess að þessi áætlun geti staðizt, þarf að leggja fé til framkvæmda á árinu 1971 og 1972.

2. Eins og á stendur er ekki hægt að segja fyrir um, hvenær fæðingardeildin verður tilbúin til notkunar. Allar fullyrðingar þar að lútandi eru eingöngu ágizkanir. En ef miðað er við, að nægilegt fé verði veitt til verksins, er talið unnt að ljúka því endanlega um áramótin 1973 og 1974. Varðandi þá tilhögun að bjóða verkið út í áföngum, þá var það einróma álit þeirra fagmanna, sem um málið fjölluðu.