17.11.1970
Sameinað þing: 10. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 588 í D-deild Alþingistíðinda. (4250)

311. mál, vöruflutningar innanlands

Fyrirspyrjandi (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin. Því er ekki að leyna, að mér finnst vera nokkuð mikill seinagangur á þessu öllu saman, og t.d. varðandi 2. liðinn, þá hefur verið sýnt nokkuð mikið tómlæti um að fylgjast með því, sem þar hefur verið að gerast.

Varðandi aðstöðuna við höfnina í Reykjavík verð ég að segja, að mér finnst allt of seint við brugðið í þeim efnum. Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að aðstaðan eins og hún hefur verið við höfnina hér í Reykjavík til afgreiðslu á vörum hjá Skipaútgerð ríkisins hefur verið ákaflega niðurbrjótandi fyrir starfsemi Skipaútgerðarinnar og átt sinn stóra þátt í hinni óheppilegu þróun, að vöruflutningar hafa færzt mikið frá sjónum, óeðlilega mikið vil ég segja, og yfir á bílana og þar með yfir á vegakerfið, sem er ákaflega veikt. Og eins og ég hef þegar tekið fram, þá er núna með tilkomu nýju skipanna tvöföld ástæða til þess að gefa þessum málum gaum.

Mér þykir ákaflega vænt um að heyra það, að nú eiga að fara fram ítarlegar athuganir á því, hvernig bezt sé að leysa þetta mál, þó að það sé nokkuð seint á ferðinni. Og ég skal ekkert segja um það, hvað heppilegast er í því tilfelli, hvort það er að flytja ríkisskip að Sundahöfn eða nota gömlu höfnina. Ég vil þó láta það koma fram, að mér finnst það muni vera nokkurt atriði, vegna þess hvað starfsemi Skipaútgerðarinnar er fjölþætt, að hún geti fengið aðstöðu nærri miðbænum, í gömlu höfninni, en auðvitað verður það allt að skoðast og metast.

Varðandi 2. liðinn, um framflutning erlendrar vöru, þá vil ég aðeins leggja áherzlu á það, hversu gífurlegur sá baggi er, sem leggst á þá vöru, sem þarf að umhlaðast í Reykjavík og flytjast héðan án framhaldsfraktar en með fullum viðbótarkostnaði út á land. Ég ætla, að það láti nærri, að með út- og uppskipun, flutningsgjöldum og hafnargjöldum séu það um 2300 kr., sem þarna koma til viðbótar á tonnið, svona á almennri vöru, matvöru og almennri stykkjavöru. Þetta er gífurlegur baggi, og ég held, að það væri í senn eðlilegt og æskilegt, að þessi mál yrðu tekin til athugunar af hálfu ríkisvaldsins, bæði með því að leita eftir samningum við skipafélögin og þrýsta á þau um að veita betri þjónustu og landsetja meira úti á landi en þau nú gera og eins á hinn veginn, að Skipaútgerðinni verði gert mögulegt að bjóða sérstaklega góð kjör í sambandi við framflutning þessarar erlendu vöru. Það er ekki óforsvaranlegt að mínum dómi, að Skipaútgerðin bjóði sérstaklega góð kjör í sambandi við stærri vörusendingar, þegar það er haft í huga, að með því er verið að hlífa vegakerfinu við álag, sem það ekki þolir.

Ég hygg líka, að það sé óhjákvæmilegt að gera ýmsar aðrar ráðstafanir til þess að nýta nýju skipin, m.a. í sambandi við flutningsgjöldin og hafnargjöldin. Ég veit, að það er ekki hægt að setja alveg sömu hafnargjöld alls staðar vegna mismunandi tilkostnaðar við hafnirnar, en ég ætla þó, að það megi samræma þau nokkuð, og ég held, að það þurfi að hagræða flutningsgjöldum frá því, sem verið hefur, og hafa nokkuð meiri sveigju í þeim. Það koma auðvitað ýmsar fleiri aðgerðir til greina, og ráðh. minnti á eina í sambandi við gjaldmæla, en ég skal ekki fara nánar út í það.