17.11.1970
Sameinað þing: 10. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 589 í D-deild Alþingistíðinda. (4256)

317. mál, strandferðir norðanlands

Fyrirspyrjandi (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Hinn 27. marz 1968 var hér á hinu háa Alþingi samþ. svo hljóðandi þáltill. um strandferðir norðanlands og útgerð strandferðaskips frá Akureyri:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta athuga möguleika á því, að Skipaútgerð ríkisins, í samráði við hlutaðeigandi bæjar- og sýslufélög, komi á fót á Akureyri útgerð strandferðaskips, er annist strandferðir norðanlands og til Austfjarða og Vestfjarða, enda séu ferðir þess í samræmi við ferðir strandferðaskipa úr Reykjavík. Niðurstöður athugunarinnar verði lagðar fyrir Alþ., svo fljótt sem unnt er.“

Sú skoðun hefur komið fram og hefur mikið til síns máls, að hringferðir strandferðaskipa frá Reykjavík, og er þá átt. við vöruflutningaskip, séu óhentugar fyrir Norðurland, enda margt breytt síðan þær voru upp teknar. Það má gera ráð fyrir, að þetta gamla fyrirkomulag eigi sinn þátt í því, að Norðlendingar eða norðlenzk fyrirtæki nota strandferðaskip minna til vöruflutninga en æskilegt væri og álag á þjóðvegi hafi einnig af þessari ástæðu aukizt um of. Akureyri er langmesti iðnaðarbær landsins utan Reykjavíkur, og þar er nú hægt að framleiða flestar þær iðnaðarvörur, sem framleiddar eru hér á landi og fluttar með strandferðaskipum. Hún er miðstöð Norðurlands á ýmsum sviðum. Á sumum öðrum norðlenzkum hafnarstöðum er einnig um verulegan iðnað að ræða. Það er æskilegt, að erlendum vörum til Norðurlands sé skipað upp á Akureyri úr millilandaskipum, ef þær fara ekki beint til annarra norðlenzkra hafna. Þá ætti norðlenzkt strandferðaskip að taka við þeim þar og flytja til ákvörðunarstaðar án aukakostnaðar fyrir viðtakendur. Eðlilegt mætti telja, að strandferðaskip norðanlands, sem hefði aðsetur á Akureyri, hefði endastöðvar á Austfjörðum og Vestfjörðum og kæmi þannig þeim landshlutum að nokkru gagni og að strandferðaskip á Akureyri og strandferðaskip úr Reykjavík skiptust á vörum og póstflutningi á Austfjörðum og Vestfjörðum. Þannig mundi farmrúm skipanna nýtast betur. Þessu mætti koma í kring þannig, að Skipaútgerð ríkisins hefði útibú á Akureyri og gerði þaðan út skipið, sem væri í strandferðunum austur og vestur frá Akureyri og til baka þangað. Einnig væri t.d. hægt að hugsa sér, að bæjar- og sýslufélög ættu skipin og gerðu þau út og fengju til þess strandferðaframlög úr ríkissjóði. En um þetta mál get ég ekki rætt nánar að þessu sinni. Þetta, sem ég hef nú sagt, er byggt á hugleiðingum ýmissa þeirra, sem áhuga hafa haft á þessu máli. En till., sem ég hef gert grein fyrir og var að lesa upp, var á sínum tíma flutt af þm. úr Norðurl. e., og með þeirra vitund hef ég nú leyft mér að bera fram svo hljóðandi fsp. til samgrh.:

„Hvað líður framkvæmd þál. 27. marz 1968 um strandferðir norðanlands og útgerð strandferðaskips frá Akureyri?“