17.11.1970
Sameinað þing: 10. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í D-deild Alþingistíðinda. (4258)

317. mál, strandferðir norðanlands

Fyrirspyrjandi (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka hæstv. samgrh. fyrir svörin og mun athuga þau nánar og þær staðreyndir, sem þar komu fram, en skal ekki ræða þær nánar að þessu sinni.

Ég held, eða mér virtist á svari hæstv. ráðh., — ég bið afsökunar á því, ef það er misskilningur, — en mér virtist á svari hæstv. ráðh., að ekki mundi mjög ítarleg athugun hafa farið fram samkv. þál. M.a. gat hann ekkert um það, hvaða undirtektir þetta hefði fengið hjá hlutaðeigandi bæjar- og sýslufélögum á Norðurlandi, sem nefnd eru í till. og gert er ráð fyrir, að yrðu í samráði við Skipaútgerð ríkisins um það að koma á strandferðamiðstöð á Akureyri. Hins vegar þótti mér gott að heyra, að hæstv. ráðh. er reiðubúinn til þess að hafa þessi mál í athugun áfram, en vera má, að þau verði þá einnig, úr því að þetta gengur heldur treglega, að því er virðist, tekin upp á öðrum vettvangi.

Ég vil leyfa mér að benda á það í sambandi við tölur, sem hæstv. ráðh. hafði yfir hér áðan og verða athugaðar nánar síðar, að þær tölur, sem lesnar voru, eru aðeins vitnisburður um flutninga að og frá Akureyri með núverandi fyrirkomulagi, en enginn vitnisburður um það verkefni, sem skip staðsett á Akureyri mundi hafa. Þar er að margra dómi mjög mikill munur á. Í raun og veru finnst mér það nú gefa auga leið, að það sé að ýmsu leyti heppilegra að haga ferðum strandferðaskipa þannig, að þau hafi vissan hluta af ströndinni hvert, og á þann hátt má gera ráð fyrir, að farmrými þeirra nýttist betur en ella.

Það vakir ekki fyrir mér og ekki heldur fyrir öðrum, sem stóðu að þessari þáltill. á sínum tíma, að þarna yrði um eitthvert smáskip að ræða, einhvern flóabát á stærð við Drang, sem nefndur var hér áðan, heldur venjulegt strandferðaskip eins og strandferðaskip gerast hér á landi, og að hér væri um þá skipulagsbreytingu að ræða, að þetta strandferðaskip væri gert út frá Akureyri og færi með ströndum á Norðurlandi og til Vestfjarða og Austfjarða og til baka aftur í staðinn fyrir það, sem nú tíðkast, þ.e. hringferðir.

Eins og ég sagði, ætla ég ekki að ræða þetta mál nánar, enda hef ég ekki tíma til þess, en þær upplýsingar, sem ráðh. gaf, munu verða athugaðar.