17.11.1970
Sameinað þing: 10. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 600 í D-deild Alþingistíðinda. (4276)

326. mál, raforkuframkvæmdir í Norðurlandskjördæmi vestra

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Sem svar við þessari fsp. vil ég taka fram eftirfarandi:

Á undanförnum mánuðum hefur farið fram athugun á því, með hverjum hætti mætti bezt leysa raforkuþörf á Norðurl. v. Hafa þessar athuganir annars vegar verið gerðar að forgöngu Rafveitu Sauðárkróks og hins vegar á vegum Rafmagnsveitna ríkisins. Á þessu orkuveitusvæði, Skagafjarðar- og Húnavatnssýslum, eru nú tvær vatnsaflsstöðvar með alls 1544 kw afli og dísilstöðvar á þrem stöðum með alls 2900 kw afli. Hlutdeild dísilstöðvanna á orkuveitusvæðinu hefur farið mjög vaxandi hin síðari árin, og er þörfin fyrir vatnsaflsorku orðin mjög knýjandi. Til þess að bæta úr þessu hefur aðallega verið um tvo valkosti að ræða, annars vegar tengingu við Laxársvæðið með háspennulínu milli Akureyrar og Sauðárkróks, en hins vegar nýja vatnsaflsvirkjun í héraði eða nánar tiltekið Svartár- eða Reykjafossvirkjun. Samanburður, sem gerður hefur verið hjá Rafmagnsveitum ríkisins, sýnir, að sem næst sama orkuverð mundi fást, hvor valkosturinn sem tekinn væri. Þegar á það er svo litið, að héraðsbúar hafa eindregið látið þá ósk í ljósi, að fremur yrði virkjað vatnsafl í héraði en tengt við Laxársvæðið, hefur ríkisstj. fyrir sitt leyti hneigzt að því fremur að kanna þessa leið nánar og til hlítar. Í iðnrn. hefur því verið í undirbúningi frv. til l. um að afla heimildar til Svartárvirkjunar eða Reykjafossvirkjunar. Ég geri mér vonir um að geta lagt þetta frv. fyrir Alþ. það, sem nú situr, innan skamms, til þess að það fái afgreiðslu á þessu þingi. Ég vil aðeins hafa þann fyrirvara, að málið þarf nokkru ítarlegri athugun, áður en að því kemur, en ég vona, að þess verði ekki lengi að bíða.

Ég vil taka sérstaklega fram í þessu sambandi, að ég hef með höndum endurrit úr fundargerðabók raforkunefndar Norðurl. v., þar sem saman voru komnir fyrirsvarsmenn í þessum málum, sýslumennirnir í Skagafjarðarsýslu og Húnavatnssýslu, Helgi Rafn Traustason fulltrúi og Adolf Björnsson rafveitustjóri fyrir hönd rafveitunefndar Norðvesturlands og bændurnir Pétur Pálmason á Reykjavöllum og Indriði og Kristján Jóhannessynir á Reykjum ásamt Sigmundi Magnússyni, Vindheimum. Á þessum fundi var rætt um virkjun Svartár og mannvirki í þágu þessarar virkjunar, og það kom fram hjá bændunum, að þeir lýstu yfir, að þeir væru virkjun hlynntir og mundu leyfa virkjun, þ.e. nýtingu fallsins, sem og alla mannvirkjagerð og yfirferð yfir lönd þeirra, enda kæmu fullar bætur fyrir allt beint tjón og greiðsla fyrir nýtingu fossaflsins, eins og lög gera reyndar ráð fyrir. Ég tel það mikils virði, að gott samkomulag virðist vera hvað þetta áhrærir. Bætur verða að sjálfsögðu ákveðnar með samkomulagi, en ef það næst ekki, þá hins vegar af dómkvöddum mönnum, þegar til á að taka. Bændurnir hafa sérstaklega tekið fram, að eigendur Svartár hafi gert leigusamning við Veiðivötn h.f. um að gera Svartá að veiðiá og vilja þeir standa við þann samning í einu og öllu, og verður í öllum samningum um væntanlega virkjun að hafa þetta sjónarmið í huga. Þetta kemur fram í bréfi eða réttara sagt endurriti úr fundabók raforkunefndar Norðurlands vestra.

Ég vil leyfa mér að vona, að með þessu sé fram kominni fsp. svarað.