24.11.1970
Sameinað þing: 11. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 604 í D-deild Alþingistíðinda. (4289)

329. mál, virkjunarmöguleikar í Skjálfandafljóti

Fyrirspyrjandi (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Þar sem hv. fyrri fyrirspyrjandi, Jónas Jónsson, er nú horfinn af þingi, þá vil ég mæla nokkur orð um þá fsp., sem nú er til umr.

Það mun hafa verið um mánaðamótin apríl–maí, að mig minnir, á s.l. vori, að viðræður fóru fram í Reykjavík milli stjórnar sameignarfélagsins um Laxárvirkjun og héraðsnefndar Þingeyinga og hæstv. raforkumálaráðh., sem nú er hæstv. forsrh., varðandi þau deilumál, sem þá höfðu komið upp varðandi virkjun Laxár í Þingeyjarsýslu. Ég ætla ekki að fara að rekja þá deilu eða þær umr., sem þá fóru fram milli ýmissa aðila, en hæstv. ráðh. ritaði hinn 13. maí s.l. þessum tveimur aðilum, sem ég nefndi áðan, svo og sýslunefnd SuðurÞingeyinga, að ég ætla, og nokkrum hreppsfélögum og samtökum landeigenda, að mig minnir, bréf um þetta mál. Í þessu bréfi var gerð grein fyrir ýmsu, sem fram hafði komið í þessum viðræðum og mörkuð að segja má eins konar stefna rn. í þessu máli. Eftir að málið hafði verið rakið í bréfinu og stefnan mörkuð af hálfu rn., þá segir svo, með leyfi hæstv. forseta, en ég skal geta þess, að þetta bréf hefur verið prentað í blöðum:

„Rn. mun beita sér fyrir, að hraðað verði eftir föngum rannsókn annarra virkjunarmöguleika, þ.e. annarra virkjunarmöguleika en í Laxá, sem völ væri á til að fullnægja raforkuþörf hlutaðeigandi héraða, svo sem virkjun Skjálfandafljóts við Íshólsvatn, en jafnframt haldið áfram að rannsaka stærri virkjunarmöguleika með hliðsjón af stóriðju fyrir norðan, svo sem Dettifossvirkjun eða samtengingu við aðrar orkuveitur.“

Í þessu sambandi er þess að geta, að nú í seinni tíð munu hafa verið uppi raddir um það, að hagstætt mundi vera að virkja Skjálfandafljót, ekki Goðafoss, eins og einhvers staðar hefur komið fram, heldur fall ofar í Skjálfandafljóti og að þar mundi mega framkvæma nokkuð stóra virkjun, sem a.m.k. mundi vera fullnægjandi fyrir þann markað, sem er fyrirsjáanlegur á orkuveitusvæðinu. Hins vegar hefur þetta mjög lítið verið rannsakað enn þá, þ.e. virkjunarmöguleikarnir í Skjálfandafljóti. En m.a. hafa verið ritaðar blaðagreinar um þetta mál af kunnugum mönnum, og einnig mun af verkfræðingum hafa verið gerð mjög lausleg áætlun um slíka virkjun. Um Dettifoss er það að segja, að samkv. því, sem segir í grg. Rafmagnsveitna ríkisins 2. maí 1965, þá hafa verið framkvæmdar margar rannsóknir á virkjunarmöguleikum við Dettifoss, og þar segir, að árið 1962 hafi Harza í New York verið falið að gera ítarlega áætlun um virkjun við Dettifoss. Og samkv. þessu skilaði Harza skýrslu um Dettifossvirkjun í jan. 1963, þar sem gert var ráð fyrir tveimur virkjunarstærðum, 100 eða 130 megavöttum, og þessu fylgdi kostnaðaráætlun, sem Harza hefur gert, þar sem áætlað var, að 100 þús. kw eða 100 mw virkjun mundi kosta 1 151 millj. og 130 mw virkjun 1203 millj. ísl. kr. miðað við þáverandi verðlag.

Þetta vil ég aðeins segja um þessar tvær virkjunaráætlanir, en í tilefni af þessu bréfi hæstv. ráðh. frá 13. maí s.l. höfum við leyft okkur að spyrja:

„Hvað líður rannsóknum á virkjunarmöguleikum: a) í Skjálfandafljóti við Íshólsvatn, b) framhaldsrannsóknum í Jökulsá á Fjöllum við Dettifoss? Hve mikið var unnið að þessum rannsóknum á s.l. sumri?“