24.11.1970
Sameinað þing: 11. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í D-deild Alþingistíðinda. (4292)

329. mál, virkjunarmöguleikar í Skjálfandafljóti

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð til áréttingar. Ég las hér upp úr skýrslunni á einum stað um hagkvæmni Laxárvirkjunar við Brúar með 23 m vatnsborðshækkun, og hv. þm. kom sú tala ókunnuglega fyrir sjónir. Það hefur verið talað um 18—20 m vatnsborðshækkun, þegar sleppt er hinni stóru 57 m stíflu í hinni svonefndu Gljúfurversvirkjun, sem raunverulega var gefin upp á bátinn í viðræðum í vetur sem leið, eins og kunnugt er, en það hefur verið skýrt frá því í blöðunum, að á þeim fundum, sem nú standa yfir, viðræðum um Laxárvirkjun milli landeigenda og Laxárvirkjunarstjórnar og rn. og fleiri aðila, hafi verið lögð fram ný hönnun að virkjun við Laxá, Laxá III, sem kölluð er, og þar með sé Gljúfurversvirkjun svo kölluð og þessi 57 m háa stífla úr sögunni, sem þýddi, held ég, 45 m vatnsborðshækkun, en samkv. þessari nýju hönnun gæti hæsta vatnsborð orðið um 23 m. Það er þaðan, sem þessi tala er komin. Það þýðir um eins til tveggja metra vatnsborðshækkun eða dýpi á Birningsstaðaflóanum, enda er ekki gert ráð fyrir, að lónið, sem myndast við þá stíflu, sem þannig er gerð, gangi lengra en upp á Birningsstaðaflóann, sem þeir átta sig á, sem þarna eru kunnugir. Það þýðir eins til tveggja metra vatnsborðshækkun þar.

Varðandi það, að ég tók það sérstaklega fram, að vissir þættir þessara rannsókna, eins og vatnaflutningar á hálendinu, hefðu verið athugaðir í sumar að frumkvæði Orkustofnunarinnar, þá er ekkert einkennilegt við það. Sjálfsagt er það hennar skylda og lögum samkvæmt að hafa frumkvæði við rannsóknir á þessu sviði. Hitt er svo annað mál, að rn. hefur á vissum sviðum gripið inn í tímasetningar á rannsóknum og óskað sérstaklega eftir, að tekin væru fyrir viss atriði til rannsókna, þ. á m. Dettifossvirkjunin og nánari athugun á Íshólsvirkjun, virkjun við Íshólsvatn, í framhaldi af viðræðum um þessi mái og bréfi rn., sem vitnað var til, frá 13. maí 1970.

Það er rétt, að rannsóknirnar á Dettifossvirkjun hafa verið endurskoðun á eldri virkjunaráformum á grundvelli þeirra gagna, sem fyrir liggja hjá Orkustofnuninni, og ég tók beinlínis fram í fyrri ræðu minni, að í rannsóknaráætlun næsta árs væri gert ráð fyrir rannsóknum á vettvangi við Jökulsá, sem ekki hafa farið fram í sumar.

Í sambandi við lokaorð hv. þm. þá mun ég einmitt leggja áherzlu á, að þessum rannsóknum í sambandi við Dettifossvirkjunina verði hraðað sem mest, en þær eru, eins og ég sagði, í tengslum við hugsanlega möguleika á staðsetningu stóriðju fyrir norðan. Nefnd sú, sem sett var á laggirnar og skipuð var fulltrúum frá svissneska álfélaginu og ríkisstj., til athugunar á þessu máli, hefur haldið marga fundi og framkvæmt ýmsar athuganir, og Orkustofnunin er einmitt að herða athuganir sínar á Dettifossvirkjun og samanburði á verði orkunnar frá Dettifossvirkjun eða frá virkjunum hér syðra, með flutningi yfir hálendið, því að þessi nefnd er að stefna að því að geta skilað niðurstöðum sínum, sinni fyrstu álitsgerð, til m. nú mjög fljótlega á næsta ári. Þeir hafa rætt um það lauslega. Ég held, að við ættum að geta staðið við þá áætlun í marz–apríl eða eitthvað því um líkt og þá einmitt á grundvelli þessara frekari rannsókna, sem getið var um, að haldið væri áfram með Dettifossvirkjunina og samanburði á raforkuverði frá slíkri virkjun, sem eru frumáætlanir og verður að gera með fyrirvara, og hvað líklegt væri, að orka flutt að sunnan mundi kosta miðað við svo og svo mikla notkun, sem væri komin til greina, þegar stóriðja væri með í spilinu fyrir norðan. En það er auðvitað sífellt að þessu unnið.

Mér er ljóst, að það er eðlilegt, að þm. finnist, að rannsóknirnar gangi of seint. Við höfum tilhneigingu til þess, leikmenn, að álíta, að það sé of mikill seinagangur út af fyrir sig á rannsóknum. Sérfræðingarnir líta nokkuð öðrum augum á það, og auk þess er okkur nokkuð vant fjár til þess að hraða rannsóknunum eins og við kannske vildum. En hér er einmitt verið að reyna að leggja áherzlu á þetta sérstaka svið og að hraða því sem verða má, og ég vildi mega vona, að þeir, sem mestan áhuga hafa fyrir því, sætti sig við þann gang mála, sem á þessu verður. En ég tek það fram, að ég held, að það væri mjög æskilegt, að þm., sem mestari áhuga hefðu fyrir tilteknum rannsóknum á tilteknum svæðum, hefðu samband t.d. við rn., sem mundi að sjálfsögðu hlutast til um að veita þeim á hverjum tíma þær upplýsingar, sem tiltækar eru, og ræða um það við Orkustofnunina. Þá gætu menn kannske oft fengið betri og fullkomnari upplýsingar frá sérfræðingunum sjálfum með þeim teikningum og gögnum, sem þeir hafa í höndum, en hægt er að gefa hér af ráðh. í stuttum svörum í þingsölunum. Ég vildi fyrir mitt leyti hlutast til um það með öllu móti, að bæði rn. og þær stofnanir, sem undir mitt rn. heyra, séu á hverjum tíma sem liðtækastar fyrir þm. til slíkrar upplýsingagjafar.