24.11.1970
Sameinað þing: 11. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 612 í D-deild Alþingistíðinda. (4299)

103. mál, samgöngumöguleikar yfir Hvalfjörð

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég vil nú biðja hv. fyrirspyrjanda afsökunar á því, að ég á eftir að svara 2. lið fsp. Ég hef litið á þetta sem eina fsp. í tveimur liðum, en mér bara sást yfir áðan að svara seinni liðnum.

Það má geta þess, að í vegáætlun fyrir árin 1969–1972 er veitt fé til rannsóknar á ofangreindu verkefni, brúargerð yfir Borgarfjörð. Árið 1970 100 þús. kr., árið 1971 400 þús. kr. og árið 1972 100 þús. kr. Við samningu vegáætlunar hefur því verið gert ráð fyrir, að rannsóknum þessum lyki fyrst á árinu 1972. Samkv. upplýsingum vegamálastjóra hafa eftirfarandi athuganir verið gerðar varðandi hugsanlega brúargerð yfir Borgarfjörð frá Borgarnesi: Loftmyndir hafa verið teknar frá Borgarfirði milli Seleyrar og Borgarness og nauðsynlegar grunnmælingar gerðar í því sambandi. Er því hægt að teikna loftmyndakort af þessu svæði, og er áætlað, að það verði gert snemma á næsta ári. Gerðar hafa verið dýptarmælingar í Borgarfirði frá Seleyri að Borgarnesi af sjómælingadeild vitamálaskrifstofunnar, og verður hægt að fella þær mælingar inn í fyrirhugað loftmyndakort. Komið hefur verið fyrir fastapunktum inn með firðinum frá Seleyri til Borgarness og þeir hallamældir. Jafnframt hefur verið mælt langsnið við Hvítá, Norðurá, Grímsá og Andakílsá, svo að unnt verði að meta hugsanleg áhrif á vatnsstöðu við byggingu brúar yfir Borgarfjörð. Rætt hefur verið við Orkustofnun um að koma upp síritandi vatnshæðarmælum á nokkrum stöðum í Borgarfirði og ofangreindum ám til þess að afla upplýsinga um þær sveiflur, sem nú eru á þessu vatnasvæði til samanburðar við þær sveiflur, sem hugsanleg brúargerð kynni að hafa í för með sér. Rætt hefur verið við Orkustofnun um að láta fara fram mælingar í hugsanlegri brúarlínu frá Seleyri til Borgarness, sem gætu gefið til kynna, hve djúpt er niður á fastan botn. Jafnframt hafa verið athugaðar leiðir til frekari könnunar á burðarþoli fjarðarbotnsins, en fyrirkomulag þeirra yrði þó ekki endanlega ákveðið fyrr en mælingunum er lokið. Þegar er ljóst, að lausn þessa verkefnis muni kosta allmiklu meira fé en veitt er til þess í vegáætlun. Sérstaklega verður kostnaðarsamt að koma upp síritandi vatnsmælum og framkvæma fullnaðarrannsóknir á jarðlögum í botni. Jafnhliða athugun á fyrirhugaðri brúargerð yfir Borgarfjörð milli Seleyrar og Borgarness hefur verið gerð jarðvegskönnun meðfram núverandi veglínu til þess að unnt yrði að fá samanburð á kostnaði við endurbyggingu hennar og þá sérstaklega brúar á Hvítá hjá Ferjukoti og brúnna yfir Ferjukotssíki. Verði nægjanlegt fé fyrir hendi, ætti að vera hægt að ljúka fullnaðarathugun varðandi brúargerð yfir Borgarfjörð fyrir árslok 1972.

Fyrirspyrjandi (Jón Árnason): Herra forseti. Ég skal ekki vera langorður í sambandi við þetta. Ég vil aðeins þakka hæstv. samgrh. fyrir þær upplýsingar, sem hann gaf varðandi síðari lið fsp., um brú yfir Borgarfjörð. Það er almennt álitið, að sú brú, sem hér um ræðir, sé mikið nauðsynjamál og verði ekki lengi frestað, eftir að nauðsynlegum undirbúningi og rannsóknum hefur verið lokið. Svo sem kunnugt er, er þessi vegur fyrir Hvalfjörð og upp í Borgarfjörð eina leiðin í dag, sem tengir Vesturlandið, Norðurlandið og Austurlandið við höfuðborgarsvæðið, og af því má öllum vera ljóst, að hér er um mjög mikilsverða samgönguæð að ræða. Hins vegar er brúin yfir Hvítá hjá Ferjukoti nú orðin um 40 ára gömul, og það segir sig sjálft, að það er takmarkaður tími, sem hægt er að búast við því, að hún geti reynzt örugg til þess að taka á sig þá miklu umferð, sem þar fer um. Hins vegar er einnig á það að líta, að brú, sem byggð yrði yfir Hvítá hjá Borgarnesi, mundi koma að meira gagni en bara sem samgönguæð fyrir allt þetta svæði, því að þetta hlýtur að vera sérstaklega stórt hagsmunamál fyrir t.d. þá, sem búa í Borgarnesi og Borgarfirði eða vestur á Mýrum og Snæfellsnesi, því að þegar þar að kemur, mun það sýna sig, að það mun stytta mikið leiðina til höfuðborgarsvæðisins.

Ég mun svo ekki orðlengja frekar um þetta, herra forseti, en þakka þessar upplýsingar. Mér var það ljóst, að rannsóknum á þessu máli er engan veginn lokið, þær eru aðeins á byrjunarstigi, en eigi að síður er gott að geta fylgzt með því, hvað er að gerast í þessum efnum, því að hér er um mikið nauðsynjamál að ræða.