24.11.1970
Sameinað þing: 11. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 615 í D-deild Alþingistíðinda. (4305)

327. mál, dragnótaveiðar í Faxaflóa

Sjútvrn. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi hefur gert grein fyrir fsp. Ég vil taka það fram áður en ég svara, að ég hef afhent honum afrit af þessu svari mínu, þannig að upptalning á mannanöfnum og nöfnum fyrirtækja, sem yrði hér langur og þurr lestur, ætti þess vegna að vera óþarfur.

Í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 40 frá 9. júní 1960, um takmarkað leyfi til dragnótaveiða í fiskveiðilandhelgi Íslands undir vísindalegu eftirliti, segir svo:

„Ráðh. getur, samkv. till. fiskideildar atvinnudeildar háskólans og Fiskifélags Íslands, ákveðið fyrir eitt ár í senn, að dragnótaveiði sé heimil á tilteknu svæði“ o.s.frv. Í 3. mgr. sömu gr. segir svo: „Áður en gerðar eru tillögur um opnun einstakra veiðisvæða, ..skal ráðh. óheimilt að opna veiðisvæði eða hluta þess, nema álitsgerðirnar styðji almennt þá framkvæmd“, og svo frekari tilvitnanir í þessar lagagr., sem fyrir liggja. Frá 32 aðilum á Faxaflóasvæðinu, sem óskað var álitsgerða frá um opnun veiðisvæðanna, bárust engin svör, en eftirgreindir aðilar höfðu verið beðnir um að láta Fiskifélaginu í té álitsgerðir sínar: 2 frá Höfnum, 3 frá Sandgerði, 8 úr Garði, 14 úr Keflavík, 2 úr Njarðvík, 2 frá Vogum, 5 frá Hafnarfirði, 9 frá Reykjavík, 3 frá Akranesi. Enn fremur voru tveir aðrir hreppar, sem ekki hafði verið sérstaklega leitað til, en létu álit sitt í ljósi, Breiðavíkurhreppur og Staðarsveitarhreppur. Álit þessi bárust fyrir 25. apríl s.l., og voru þau á eftirgreindan veg: 14 sögðu nei, 3 sögðu já. Höfðu aðeins 20% þeirra, er spurðir voru, sent inn álitsgerðir. Vegna ónógrar þátttöku í þessari könnun ákvað sjútvrn., að Fiskifélagið leitaði á ný álits allra þeirra aðila, er hagsmuna hafa að gæta um dragnótaveiðar í Faxaflóa, og var tilkynning þess efnis frá Fiskifélagi Íslands birt 12. júní s.l. og skyldu aðilar senda inn nýjar umsagnir um málið í síðasta lagi um 20. júní. Niðurstaða þeirrar skoðanakönnunar varð sú, að 39 aðilar sendu inn svör fyrir 20. júní s.l. 18 sögðu nei, 21 já. Í síðari könnuninni urðu þannig um 45% þeirra, er spurðir voru, til að gefa álitsgerð fyrir 20. júní. Þess má geta, að nokkrir aðilar sendu inn álitsgerð í fyrri skoðanakönnuninni, en ekki í þeirri seinni og enn nokkrir eftir 20. júní s.l., og breyttu þær álitsgerðir þó ekki niðurstöðunni.

Þótt þannig yrðu fleiri aðilar með opnun Faxaflóa til dragnótaveiða en á móti, verður samt sem áður einnig að líta til þess, að þeir aðilar, sem meðmæltir voru dragnótaveiðum, tala fyrir munn miklu fleiri manna, sem hagsmuna hafa þar að gæta, en þeir aðilar, sem á móti dragnótaveiðum voru. Í hinum stóru byggðarlögum, Reykjavík og Keflavík, voru allir aðilar, er álitsgerðir létu í té, meðmæltir opnun að undanskildum tveimur. Meðal þeirra, er meðmæltir voru opnun Faxaflóa til dragnótaveiða, var Landssamband ísl. útvegsmanna, Útvegsmannafélag Reykjavíkur, borgarstjórn Reykjavíkur, bæjarstjórn Keflavíkur og flestöll starfandi frystihús á þessum stöðum. Þótt dragnótaveiðar væru leyfðar á þessu sumri í Faxaflóa eins og undanfarin ár, var stór hluti flóans lokaður fyrir dragnótaveiðum. Veiðar voru bannaðar á svæði innan línu úr Garðskagavita um 14 gráður 12 mínútur n.br. og 22 gráður og 42 mínútur v.l. í Gerðistangavita og úr Hólmsbergsvita við bauju nr. 6 í Faxaflóa í Kirkjuhólmsvita. Enn fremur var lokað út af Reykjanesi á svæði innan línu, milli punkta, tvær sjómílur beint í vestur frá Stafnnestá og tvær sjómílur beint í vestur frá Reykjanestá, Önglabrjótsnefi. Svæði þetta takmarkast að norðan af línu beint í vestur frá Einbúa í Ósum og að sunnan af línu beint í vestur frá Reykjanestá, Önglabrjótsnefi. Þar með tel ég, að fsp. sé svarað.