24.11.1970
Sameinað þing: 11. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 616 í D-deild Alþingistíðinda. (4306)

327. mál, dragnótaveiðar í Faxaflóa

Fyrirspyrjandi (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svörin, sem ég hef fengið að sjá skriflega í meiri smáatriðum en kom fram hér í svari hans núna, en þau sýna ljóslega, að í reynd er aðstaða sveitarstjórna til þess að koma í veg fyrir dragnótaveiðar í landhelgi og vernda sín veiðisvæði nánast engin. Og eins og ég áðan sagði, skýtur það mjög skökku við það, sem haldið var fram, þegar verið var að setja þessi lög á sínum tíma. Sú áherzla, sem flm. frv. lögðu við afgreiðslu þess á þann rétt sveitarstjórna að hindra opnun veiðisvæða, ætti vissulega að vega þungt, þegar rn. er að taka sínar ákvarðanir í þessu efni.

Þótt þeim sérstöku áréttingum flm. væri sleppt og einungis væri litið til þeirra ákvæða laganna, að óheimilt sé að opna veiðisvæðin nema álitsgerðir styðji almennt þá framkvæmd, þá er augljóst, að við veitingu leyfa til dragnótaveiða í Faxaflóa á s.l. sumri hefur ekki verið farið að lögum. Það er með engu móti hægt að halda því fram, að umsagnirnar styðji almennt þá ákvörðun að opna veiðisvæðin. Svör hæstv. ráðh. hefðu verið skýrari, ef hann hefði beinlínis tilgreint, hvernig hver og einn svaraði, en þau segja þó nóg í þessu efni. Í seinni skoðanakönnuninni mælir 21 með, en 18 á móti. Jafnvel þótt aðeins sé litið á þessar tölur, er auðsætt, að það er með engu móti hægt að sætta sig við það, að hægt sé að leggja á þær það mat, að þær uppfylli þau skilyrði l. gr. laganna, að álitsgerðirnar styðji almennt þá ákvörðun að opna veiðisvæði til dragnótaveiða. Þá afsökun fyrir veitingu veiðiheimilda, að meiri mannfjöldi hafi staðið á bak við meðmælin en mótmælin, tel ég algerlega fráleita. Slíkur mannfjöldareikningur á sér enga stoð í lögunum og enn síður í þeim skýringum, sem fylgdu í umr. um lagafrv. á sínum tíma á Alþ., og jafnvel má miklu fremur segja, að þar hafi þvert á móti verið lögð öll áherzlan á það vald, sem hver einstök sveitarstjórn fengi til þess að koma í veg fyrir opnun veiðisvæðanna með sínu m umsögnum.

Séu niðurstöðutölurnar úr skoðanakönnuninni athugaðar frekar, þá kemur enn betur í ljós, hversu fráleitt það er að halda því fram, að þessar tölur, 21 með og 18 á móti, styðji almennt þær aðgerðir rn. að leyfa dragnótaveiðarnar, því að í svari hæstv. ráðh. kom fram, að á tveim stöðum, Reykjavík og Keflavík, svara 23 aðilar. Þetta er í þeim svörum, sem ég hef séð skrifleg, en komu ekki fram hér áðan, en 23 aðilar úr Reykjavík og Keflavík svara, og þeir svara allir jákvætt nema tveir, þ.e. 21 svarar jákvætt, og þar eru þá komin öll þau jákvæðu svör, sem fengust á öllu svæðinu. Það þýðir, að allir aðilar, sem svöruðu frá Höfnum, Sandgerði, Garði, Njarðvíkum, Vogum, Hafnarfirði, Kópavogi, Akranesi, Breiðuvíkurhreppi og Staðarsveit, svara neitandi, hver og einn einasti frá öllum þessum stöðum. Það fer því ekki á milli mála, að því fer víðs fjarri, að álitsgerðirnar styðji almennt þá ákvörðun rn. að veita heimildirnar. Með miklu meiri rétti mætti halda hinu gagnstæða fram. Og augljóst er, að rn. átti ekki og mátti ekki veita leyfi til dragnótaveiða í Faxaflóa á s.l. sumri.

Ég er sannfærður um það, að margir og kannske flestir hv. þm: samþykktu lögin um dragnótaveiði í landhelgi m.a. eða frekar eingöngu vegna þess, að þeir treystu því, að við framkvæmd laganna yrði farið með sérstakri gát og fremur yrði gengið of skammt í þá átt að opna veiðisvæði en of langt og sérstaklega yrðu virt þau sjónarmið flm. frv., sem lögðu áherzlu á, að hver sveitarstjórn fengi með lögunum rétt til þess að vernda þau veiðisvæði, sem mikilsverð væru því fólki, sem byggi í viðkomandi sveitarfélagi. Sú niðurstaða, að leyfðar voru dragnótaveiðar í Faxaflóa s.l. sumar þrátt fyrir öll þau andmæli, sem bárust alls staðar að frá öllum stöðum á þessu svæði nema tveimur, er mjög í mótsögn við það, sem haldið var fram, að verða mundi, þegar verið var að setja lögin um dragnótaveiðarnar.

Hér er um liðinn tíma að tefla, og tjóar ekki frekar um hann að fást. Höfuðmáli skiptir, hvernig haldið verður á þessum málum í framtíðinni. Ég þykist þess fullviss, að persónulega hneigist hugur hæstv. ráðh. fremur að friðun þessara svæða og honum mundi falla betur að hlíta úrskurði þeirra fjölmörgu, sem svara neitandi í umsögnum sínum, en að veita veiðiheimildir á mjög svo hæpnum forsendum, eins og gert var s.l. vor. Og falli umsagnirnar á næsta vori á svipaðan hátt og nú síðast, þá vænti ég þess, að hæstv. ráðh. láti það eftir sér að friða Faxaflóa fyrir dragnót. Til þess hefur hann styrk í 1. gr. laganna og ekki sízt hefur hann styrk til þess í skýrum yfirlýsingum flm. frv. um dragnótaveiðar um ótvíræðan rétt einstakra sveitarfélaga til þess að koma í veg fyrir opnun veiðisvæða.