24.11.1970
Sameinað þing: 11. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 617 í D-deild Alþingistíðinda. (4307)

327. mál, dragnótaveiðar í Faxaflóa

Jónas Árnason:

Herra forseti. Það hefði verið fróðlegt að heyra í sambandi við þessa fsp. um álitsgerðir vegna opnunar veiðisvæða til dragnótaveiða í Faxaflóa, það hefði verið fróðlegt að heyra, hverjir hafi helzt verið spurðir álits varðandi opnun svæða til sams konar veiða á öðrum mikilvægum miðum, þ.e. í Breiðafirði, en ráðh. hefur sennilega ekki tiltæk gögn til þess að svara því svona alveg á stundinni. En ég leyfi mér að fullyrða, að þegar um er að ræða undanþágur til veiða í landhelginni og raunar ýmsar fleiri ráðstafanir varðandi landhelgina, þá sé yfirleitt allt of lítið lagt upp úr áliti þess fólks, sem hlýtur að vera kunnugast öllum staðháttum, þess fólks, sem býr á nærliggjandi svæðum, og sjómanna, sem hafa lengi stundað veiðar á viðkomandi miðum. Oft er álit þessa fólks alveg andstætt áliti þeirra, sem öllu ráða þó yfirleitt um það er lýkur. Og þegar leitað er álits einhverra samtaka, þá vega venjulega þyngst á metunum skoðanir útgerðarmanna, hinna tiltölulega fámennu samtaka þeirra, en álit hinna fjölmennari samtaka, verkalýðsfélaga og sjómannafélaga t.a.m., eru oft á tíðum sniðgengin með öllu. Þetta hefur valdið mikilli gremju í slíkum félögum. Ég hef hér t.a.m. í höndum ályktun, sem samþ. var á fundi í sjómannadeild verkalýðsfélagsins Aftureldingar á Hellissandi 25. okt. s.l., þar sem svona vinnubrögðum er harðlega mótmælt. Það væri fróðlegt að lesa upp úr þessari ályktun, en til þess er ekki tími hér. Hins vegar ætla ég að leyfa mér að tefja fundinn örstutta stund með örfáum orðum um hörpudiskinn.

Samkv. upplýsingum, sem ég fékk í símtali við Stykkishólm í morgun, þá eru nú þeir bátar, sem stunda hörpudiskveiðar þarna vestra, orðnir samtals 20, og það er vitað um þrjá til viðbótar, sem eru að búast á þessar veiðar. Síðan þessar veiðar hófust í sumar, er afli bátanna orðinn u.þ.b. 3000 tonn, þessir bátar haf a skilað á land um 3000 tonnum. En það má gera ráð fyrir, að þeir hafi mölvað annað eins af þessari skel og skilið eftir á botninum. Þeir byrjuðu veiðarnar út undir Elliðaey, en þeir hafa verið að plægja botninn innar og innar og eru nú komnir inn undir Hrappsey og Arney. Fólkið þarna vestra, það fólk, sem hefur bezta aðstöðu til þess að fylgjast með þessum málum, er ekki í nokkrum vafa um það, að hér er um að ræða rányrkju af argasta tagi, og það óttast, að hörpudiskurinn, sem gæti með skynsamlegri skipulagningu á veiðunum og vinnslu hans orðið Snæfellsnesinu og fleiri byggðarlögum álitleg búbót með því að tryggja aukna og jafna atvinnu, fólkið óttast það, að hann verði óðar en varir með öllu uppurinn.

Sérfræðingar, sem beðnir hafa verið að segja álit sitt á þessu, eru e.t.v. ekki allir á sömu skoðun, en þó er mér kunnugt um, að í álitsgerð, sem Hafrannsóknastofnunin hefur sent hæstv. sjútvrh., lýsir stofnunin yfir þeirri skoðun sinni, að sjálfsagt sé að takmarka þessar veiðar þannig, að til þess að stunda þær þurfi bátar — eins og tíðkast með rækjuveiðar og raunar undanþáguveiðar með dragnót innan landhelginnar — sérstök leyfi frá ráðh. Mér virðist raunar sjálfsagt, að þau leyfi séu bundin við báta, sem róa frá Breiðafjarðarhöfnum og næsta nágrenni Breiðafjarðar. Ráðh. mun sjálfsagt telja sig verða að byggja slíkar leyfisveitingar á till. frá Hafrannsóknastofnuninni, og ég leyfi mér að spyrja hæstv. ráðh.: Hefur Hafrannsóknastofnunin gert till. um þetta, og ef svo er, hvenær má búast við aðgerðum í málinu, þ.e. reglugerð, sem takmarki þessar veiðar, reglugerð, sem fæli í sér ákvæði um sérstakt ráðherraleyfi til þess að stunda þær?