24.11.1970
Sameinað þing: 11. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 619 í D-deild Alþingistíðinda. (4308)

327. mál, dragnótaveiðar í Faxaflóa

Jón Árnason:

Herra forseti. Það er vissulega mikið alvörumál, sem hér er á dagskrá núna og hæstv. sjútvrh. hefur verið að upplýsa um dragnótaveiðarnar. Þær upplýsingar, sem komu fram hér áðan, að það hefðu fyrst verið 14, sem sögðu nei, en 3 já, þær eru athyglisverðar að því leyti, að það er merkilegt, að það skyldu ekki vera alveg öfug hlutföll í þessum tölum, vegna þess að svo oft er búið að daufheyrast við röddum þeirra manna, sem hafa andmælt í þessu máli. Og það er líka eftirtektarvert, að í hvert skipti sem Fiskifélagið lengir frestinn til að skila umsóknum eða umsögnum um þetta mál, er það þegar nei-in eru fleiri en já-in. Ég held, að það séu ekki dæmi til þess, — ég hef reynt að fylgjast með því, og ég held, að það séu ekki dæmi til þess, að þeir hafi framlengt til þess að fá meiri þátttöku, þegar þannig hefur staðið á, að fleiri sögðu já í upphafi heldur en nei. Og það sýnir nokkuð, hvernig hugarfar þessara manna er, sem sjá um þetta.

Mér er mjög vel kunnugt um afstöðu og álit hæstv. sjútvrh. á þessari rányrkju, sem átt hefur sér stað hér í Faxaflóa, sérstaklega varðandi dragnótaveiðarnar. Hann hefur verið þeirrar skoðunar, að það verði að gæta allrar varúðar í þessum efnum. En það, sem ég tel, að sé nauðsynlegt sérstaklega að taka til rækilegrar endurskoðunar í þessum efnum, er að skapa nýjar og ákveðnar reglur um, hverja á að spyrja í þessum efnum. Mér er kunnugt um, að það er nokkuð handahófskennt, til hverra er leitað. Í sumum tilfellum er farið til einstakra báteigenda, í sumum tilfellum til fyrirtækja og í sumum tilfellum til sveitarstjórna eins og lögin gera ráð fyrir. En eins og ég segi, það eru einhverjir einstakir aðilar, sem eru valdir úr og þeim sent bréf og tilmæli. Það þarf að taka þetta miklu fastari tökum og setja ákveðnari og fastari reglur um þessar fyrirspurnir og hverja á að bera málið undir:

Út af því, sem kom fram hjá hæstv. sjútvrh., þegar hann gat um niðurstöður úr þessum álitsgerðum, að þessir 21 töluðu fyrir munn miklu fleiri en hinir 18, vil ég segja, að það er nú eftir því, hvernig á það er litið. Hvað á að vera þyngst á metunum í þeim efnum? Við skulum bara líta til heilla byggðarlaga, sem eiga alla sína lífsafkomu undir því, að sjávarútvegurinn verði rekinn með góðum árangri, og svo aftur til Reykjavíkur. Við vitum, að landið allt á mikið undir því, að útgerðin gangi vel. En ef við lítum til hlutfallanna t.d. hér í Reykjavík, hve mikill hluti Reykvíkinga á lífsafkomu sína undir því, hvað dragnótaveiðar ganga vel eða fiskveiðar, ellegar þá íbúar þeirra byggðarlaga, sem byggja alla sína lífsafkomu á sjávarútvegi, eins og er víða hér við Faxaflóa, þá hygg ég, að það mætti kannske líta eitthvað öðrum augum á þær niðurstöður, sem felast í þessum tölum, sem fyrir liggja um þátttöku í þeirri atkvgr., sem farið hefur fram um þetta mál.

Það má heita undravert, hve þeir, sem í andófinu eru í þessu máli, halda lengi út að senda svör og yfirleitt láta álit sitt í ljós um þetta mál, svo hunzaðir sem þeir hafa verið, þó að þeir hafi sýnt áhuga. Það á við um þessa þrjá, sem sendu svör áður en fyrra tímabilið var útrunnið. Hinir, sem ekki gerðu það, hafa eflaust litið svo á, að það skipti engu máli, hve margir væru á móti. Þeir, sem meðmæltir séu veiðunum, hafi fiskifræðingana með sér og þá, sem ráða í þessum efnum, og það verði niðurstaðan, að þetta verði leyft, þó að andstaða sé í málinu.