16.12.1970
Efri deild: 36. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 624 í B-deild Alþingistíðinda. (431)

170. mál, vegalög

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Það var rétt hjá hæstv. samgrh., að þm. hefðu fengið að sjá þetta frv. nokkru áður en það kom fram. Það var rætt í mínum þingflokki, og ég gerði þá þegar í stað aths. við þá hækkun, að þungaskattur ætti að hækka um 50% — taldi hér alltof stórt stökk á ferðinni og varla réttlætanlegt. Þess vegna vildi ég gera fsp. um það til hæstv. ráðh., hvort ekki væru tök á því með einhverju móti að skoða hlutföllin hér á milli benzínskattsins og þungaskattsins í þeim tilgangi, að benzínið færi þá upp í heila krónu og stæði ekki á aurum, eins og hæstv. ráðh. nefndi, en þungaskatturinn lækkaði.

Það er augljóst mál, að hér bitnar þungaskatturinn á vissum bílategundum — bílategundum, sem eru í framleiðslu landsmanna, landbúnaði og sjávarútvegi fyrst og fremst og einnig að verulegu leyti í vöruflutningum. Þessi þungaskattur mun koma inn í verðlagið. Og ég spyr hæstv. ráðh.: Hefur það verið reiknað út, hversu mikið vöruverð hækkar vegna þessara hækkana? Um hversu margar krónur? Hvernig kemur þetta fram á verði á mjólkurlítranum? Hvaða áhrif hefur þetta á flutning á vörum til Akureyrar eða Austfjarða með langferðabílum? Þetta skiptir verulegu máli. Einnig er það mjög óeðlilegt, að ein stétt manna, sem eru vörubílstjórar — þótt þeir vinni með mismunandi hætti að flutningum — taki á sig á svo stuttum tíma jafnstórkostlega hækkun og fram kom í ályktun þeirri — en ég hafði nú ekki heyrt hana áður — sem lesin var hér upp af síðasta ræðumanni, og er það næsta undarlegt að elta eina stétt manna með svo snöggum hækkunum á svo skömmum tíma. Það hygg ég einsdæmi, og væri gott ef hæstv. ráðh. gæti nefnt mér dæmi um aðra hliðstæðu. Það má segja, að eftirspurn hjá þessum mönnum er nokkuð teygin, og hækki þeirra taxtar mjög ört, þá leitast mjög mörg fyrirtæki við að eiga sína eigin bíla og reyna að draga úr notkun vörubíla eftir beztu getu. Það eru eðlileg viðbrögð við slíkri skyndihækkun. Það kynni því að koma fram bókstaflegt atvinnuleysi hjá þessari stétt manna, ef svo snögglega er ráðizt í hækkun. Það er mín skoðun.

Hins vegar vil ég láta það í ljósi, að ég er tilbúinn að standa að því, að benzín hækki. Ég vorkenni ekkert því fólki, 20–30 þús. manns, sem fer út úr Reykjavík um verzlunarmannahelgina og eyðir fleiri þúsundum króna í benzín og aðra vitleysu um þessa einu helgi, en ég hef samúð með þeim mönnum, sem búa við stopula atvinnu og verða að treysta á, að landbúnaður og sjávarútvegur og aðrir vöruflutningar séu eðlilegir hér á landi. Ég bið hæstv. samgmn. að athuga þetta gaumgæfilega, og það væri æskilegt, ef hæstv. ráðh. vildi tjá sig eitthvað í þessu efni. E. t. v. hefur þetta verið unnið svo hávísindalega, að ekki sé nokkur leið að hnika þessu til. En ég vil þá spyrja: Hvaða aðilar unnu það? Ef það er Vegagerð ríkisins eingöngu, þá treysti ég henni ekki, þar sem ég bý í Kópavogi og hef séð jafnátakanlega vitleysu og þar hefur átt sér stað. Ef þeir hafa unnið það einir, þá trúi ég þeim varlega. Einnig mætti spyrja: Hvernig verður háttað endurgreiðslum vegna jeppabifreiða í landbúnaði? Mér er tjáð, að þar séu allveruleg brögð í tafli í sambandi við þungaskatt og jalnvel eignaraðild að bílunum. Allt þetta þarf að koma fram, þegar við erum að meta og vega tekjumöguleika, og eins og kemur fram i frv., gera rn. eða Vegagerð ríkisins ákveðnar áætlanir um tekjur, en svo stendur hér, að brúttórauntekjur séu yfirleitt lægri, og er hér reiknað með í frv. 23% alföllum, eins og segir í aths. Það er kannske erfitt að koma því við, að menn misnoti ekki rétt sinn til að fá endurgreiðslu, en e. t. v. væri það athugandi að fella hana alveg niður. Það er líka viðkvæmt mál, en fyrst við erum með stórauknar álögur, sem nema tugum milljóna á ákveðna stétt manna, mætti þá ekki athuga, að sumir hefðu ekki möguleika á að hagnast á því ólöglega. Það finnst mér a. m. k. lágmarkið.

Að öðru leyti vil ég taka undir það, sem sagt hefur verið hér af ræðumönnum, að við þurfum auðvitað að tryggja Vegasjóði nægilegar tekjur, og ég vil standa að því, og ég vona, að menn misskilji mig ekki þannig, þó að ég ætlist til, að tekjuöflun eigi að vera með eilítið öðrum hætti. Þeir, sem eyða miklu benzíni hugleiða það yfirleitt mjög lítið. Menn fara hér ákaflega mikið í bifreiðum á morgnana í vinnu, heim í mat og svo á bíó, og þeir hugsa yfirleitt lítið um þessi rekstrarútgjöld. Hins vegar er það mjög viðkvæmt mál, þegar þungaskattur hækkar upp í 40–60 þús. kr. eða jafnvel enn meir. Það kemur hér fram, að yfir 1000 bílar samkv. skrá á bls. 8 eru yfir 6 tonna þunga, og þetta sýnist mér vera veruleg og tilfinnanleg skattahækkun, sem þessir bílar verða að taka á sig — mjög veruleg — og nemur fljótlega alls nokkuð yfir 40 millj. kr. og hækkunin þá samtals mikið á 3. tug milljóna. Þetta er veruleg skattaálagning og kemur skyndilega.

Okkur er öllum ljóst, að betra skipulag þarf að vera á framkvæmd vegáætlunar. Ég veit ekki, hvort það er rétt áætlað, en verði vegaframkvæmdin ekki með meiri hraða en á henni var hér upp úr Reykjavík, þá virðist mér, að það muni taka hátt í 100 ár að komast bara til Akureyrar. Auðvitað er slíkur hraði óhugsandi, og það fagna allir því að eiga góða vegi, og ég vil taka undir það, að það er mikill ávinningur að góðum vegum. Það dregur úr eldsneytisnotkuninni, og það dregur geysilega úr viðhaldi bifreiða, sem er líka fé fyrir bíleigendur bæði meiri háttar og minni háttar. Að öðru leyti skal ég ekki lengja þessar umr., en ég vildi vonast til þess, að það væri tekið til mjög vinsamlegrar athugunar, hvort ekki eru einhver tök á því að færa þungaskattinn niður á við frá því, sem frv. gerir ráð fyrir, og athuga um eilitla hækkun á benzíngjaldi á móti.