24.11.1970
Sameinað þing: 11. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 621 í D-deild Alþingistíðinda. (4313)

331. mál, heyverkunaraðferðir

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Á s.l. vori lagði ég fyrir bútæknideild landbúnaðarins, að hún gerði athugun á heyverkunaraðferð þeirri, sem Benedikt Gíslason hefur verið með í tilraunaskyni. Þess ber þó að geta, að það eru fleiri en Benedikt Gíslason, sem eru með ýmsar sérstakar aðferðir í athugun. Ég vil nefna Sigurbjörn Árnason, sem hefur sótt um styrk til fjvn. til tilrauna með nýja heyverkunaraðferð. Ég vil nefna Einar Guðjónsson. Hann er einnig með nýja aðferð. Ég vil nefna Ágúst Jónsson rafvirkja og svo Benedikt Gíslason. Allir þessir menn eru með tilraunir í heyverkunaraðferðum og hafa allir mikla trú á því, hver fyrir sig, að þeir séu með merkilegar tilraunir og merkilegar aðferðir, og ég get vel trúað því, að svo sé, því að það er vitanlega á margan hátt hægt að þurrka hey og er reynt með ýmsu móti. En í sambandi við prófunina á Hvanneyri er rétt að geta þess, að þar hafa verið reyndar ýmsar aðferðir, og ég tel rétt að lesa hér upp nokkuð úr þeirri skýrslu, sem borizt hefur frá Ólafi Guðmundssyni, sem annaðist athugun á þessari aðferð. Hann segir m.a.:

„Heyþurrkunaraðferð Benedikts Gíslasonar er í stórum dráttum sem hér segir:

Byggja skal þurrkhús fyrir hey við geymsluhlöðu og því blásið inn í hana að þurrkun lokinni. Þurrkhúsið skal byggt á stólpum, svo að loft leiki undir því á alla vegu. Í botni hússins skal vera net af pípum með heitu vatni eða gufu, sem hituð er upp með olíu í þar til gerðum katli. Fínriðið net er haft yfir pípunum, svo að heyið leggist ekki að þeim. Vifta skal vera staðsett á miðju þaki hússins, og á hún að draga loft neðan frá upp í gegnum heyið í þurrkhúsinu. Benedikt gerir ráð fyrir, að húsið sé 28 m2 að flatarmáli og hæðin 2.5 m. Grasið sé sett nýslegið inn í þurrkhúsið, og áætlar hann að þurrka í því 70 hestburði á dag. Hann gerir ráð fyrir, að 6 tonn af fullþurru heyi fáist úr 10 tonnum af nýslegnu grasi, en eftir því að dæma ætti að vera um 50% af þurrefni í grasinu í stað 20%, sem almennt er reiknað með. Í grg. ræðir Benedikt um loftpípuafl, sem verki í samanþjöppuðu heyi og dragi loft upp í gegnum það líkt og sykurmoli vatn. Viftan í þakinu á að örva þennan loftstraum, en ekki kemur fram í grg., hve mikil afköst hennar skuli vera miðað við heymagn. Hitapípurnar undir heyinu eiga að flýta þurrkun heysins, en ekki eru heldur upplýsingar í grg. um það, hve mikil upphitunin á að vera. Það, sem einkum aðgreinir heyþurrkunarbúnað Benedikts frá venjulegu súgþurrkunarkerfi, er það, að viftan er staðsett í þaki þurrkhússins og sogar loftið upp í gegnum heyið í stað þess að þrýsta því neðan frá, eins og á sér stað í venjulegu súgþurrkunarkerfi. Heldur Benedikt því fram, m.a. í útvarpsviðtali sumarið 1968, að viftan skili miklu meira loftmagni við sog. heldur en þrýsting miðað við sömu heystæðu. Þá heldur Benedikt því fram, að loftstraumurinn upp í gegnum heystæðu verði jafn í gegnum hana alla, þegar um loftsog er að ræða. Er þetta mikilvægt atriði, en tilraunir innlendar og erlendar með inniþurrkun á nýslegnu grasi í stæðum hafa sýnt, að loftstraumurinn upp í gegnum heyið verður ætíð misjafn, hve vel sem reynt er að jafna heyinu í stæðunni. Loftið leitat upp, þar sem mótstaðan er minnst fyrir, heyið þornar þar á skömmum tíma, en annars staðar seint eða ekki. Árangurinn verður misþurrt hey og léleg nýting þurrkunarloftsins.

Í tilraunum sínum lagði bútæknideild megináherzlu á að kanna þessi tvö atriði, þ.e. loftmagnið, sem viftan skilaði, og loftstreymið upp í gegnum heystæðuna, annars vegar við loftsog og hins vegar við loftþrýsting. Til þess að framkvæma umræddar tilraunir var smíðað lítið þurrkhús á Hvanneyri í samráði við Benedikt Gíslason. Stærð þess var 2x2 m, vegghæð 1 m og hæð stólpa undir húsinu 50 cm. Botn heyþurrkunarrýmisins var rimlabotn úr tveggja tommu rimlum með tveggja tommu millibili. Síðari hluta sumars var smíðað vatnselement úr ribburörum, sem sett var undir rimlabotninn og tengt vatnskerfi frá olíukyntum miðstöðvarkatli. Viftan var staðsett í röri 46 cm í þvermál, sem sett var á mitt þakið. Þak og veggir voru smíðaðir loftþéttir, þannig að viftan gæti ekki dregið kalt loft. Þurrkhúsið var þannig útbúið, að fljótlegt var að klæða utan á stólpa þessa að neðan og mynda lokað kerfi undir rimlabotninum. Var auðvelt að taka viftuna að ofan, tengja hana við kerfið og nota hana þannig til að þrýsta loftinu upp í gegnum heyið. Með slíkri aðstöðu var unnt að kanna loftmagn og loftstreymi upp í gegnum heyið, ýmist við sog eða þrýsting. Lofthraðamælir af ARMO-gerð var notaður til þess að mæla lofthraðann í röri upp úr þaki og loftmagn reiknað út frá því. Loftstraumurinn upp úr heystæðunni var mældur með vindhraðamæli. Raðað var hólkum af sömu stærð ofan á heystæðuna á tilteknum stöðum og lofthraðinn upp úr þeim mældur. Loftþrýstingur var mældur fyrir ofan heystæðuna, þegar sogað var, en í kerfinu undir rimlagólfi, þegar blásið var. Hita- og rakamælar voru notaðir til þess að fylgjast með ástandi útiloftsins og loftsins upp úr heystæðunni. Rennslismælir var settur á vatnslögnina frá vatnselementi og vatnshitamælir bæði í inntaksrör og úttaksrör þess. Sýni úr heyinu voru tekin með heybor, sýnin í lok hverrar tilraunar voru tekin með jöfnu millibili eftir hornalínum heystæðnanna.“

Hér er um nokkuð að ræða, sem vert er að veita athygli. Þá segir í ályktunarorðum þessarar skýrslu: „Niðurstöður framangreindra tilrauna benda til þess, að við inniþurrkun á heyi sé enginn raunhæfur munur á því annars vegar að soga loftið upp í gegnum það og hins vegar að blása því neðan frá, hvorki er tekur til loftsmagns viftunnar né jafnleika loftstraumsins upp í gegnum heyið. Kemur það saman við álit sérfræðinga á þessu sviði. Staðsetning viftunnar í þaki hlöðunnar krefst þess, að þak og veggir séu loftþéttir, en það hefur í för með sér dýrari byggingu en ella. Hiti sá, sem myndast í hreyfli viftunnar í vinnslu, nýtist til upphitunar og þurrkunar loftsins, ef viftan er staðsett í kerfi undir heyinu og blæs loftinu frá sér upp í gegnum það. Hitinn frá hreyflinum nýtist hins vegar ekki, ef viftan er staðsett í þaki hlöðunnar. Upphitunarkerfi fyrir loft til heyþurrkunar er að öðru jöfnu einfaldara og ódýrara í uppsetningu, þegar loftinu er blásið inn undir heyið, heldur en við loftdrátt upp úr þaki. Mælingar bútæknideildar sýndu, að nýting hitaorkunnar er lakari, ef opið er undir þurrkhúsið á alla vegu, heldur en við notkun lokaðs kerfis. Ákvörðun á meltanleik heysins sýndi, að rýrnun fóðurgildis þess var nokkuð breytileg, eftir því hve ört heyið þornaði í þurrkhúsinu. Í tilraun nr. 28 1969 var meltanleiki heysins við hirðingu 71%, en eftir þurrkun að meðaltali 69%.

Þurrkun á grasi með upphituðu lofti hefur tíðkazt um áratugi. Hér á landi hefur súgþurrkun heys með upphituðu lofti verið notuð á nokkrum stöðum um árabil með góðum árangri. Það er gömul reynsla, bæði hérlendis og erlendis, að hraðþurrkun á nýslegnu grasi í stæðum, eins og aðferð Benedikts gerir ráð fyrir, leiðir til misþornunar heysins, svo sem ljóst er af framangreindum niðurstöðum, en slíkt leiðir til lélegrar orkunýtingar. Hraðþurrkunartæki þau fyrir heyið, sem hafa rutt sér til rúms hin síðari ár, eru árangur af áratugaþróun, sem beinzt hefur að því að fá sem bezta nýtingu hitaorkunnar. Gras, sem er hæfilega þroskað til heyverkunar, inniheldur yfirleitt 20–23% þurrefni, sé þurrt á. Í fullþurru heyi eru um 85% þurrefni. Úr hverju tonni af grasi þarf því að þurrka u.þ.b. 750 kg af vatni. Þetta samsvarar því, að hverjum hestburði af þurru heyi fylgi um 300 kg vatns, sem þarf að þurrka upp. Í góðum hraðþurrkunartækjum fara því u.þ.b. 30 lítrar af olíu fyrir hvern hestburð af þurru heyi.“

Þetta er skýrsla, sem mér hefur borizt frá bútæknideild landbúnaðarins og er byggð á tilraunum, sem gerðar voru á þessari heyþurrkunaraðferð.

Nú ber þess að geta, að Benedikt Gíslason hefur einnig framkvæmt þurrkun á heyi austur í Hveragerði, og hefur því verið lýst bæði í blöðum og í útvarpi og mikið af því látið, og ekki dettur mér í hug að gera lítið úr þessum tilraunum eða þessari uppfyndingu Benedikts, og það hefur sýnt sig, að það er vel mögulegt að þurrka hey með þessum hætti, en samkv. þeirri skýrslu, sem ég nú hef lesið upp úr, virðist á vanta, að unnt sé að þurrka heyið með ódýrum hætti á þennan hátt.

Það eru vitanlega margar aðferðir til þess að þurrka hey. Bændur hafa komið upp súgþurrkunarkerfum flestir hverjir, en árangurinn er því aðeins góður með súgþurrkuninni, að hægt sé að blása heitu lofti. Ef unnt er að blása heitu lofti, er hægt að hirða heyið lítið þurrt af vellinum og flytja það inn og þurrka það í sambandi við súgþurrkunarkerfið. En ef blásið er köldu lofti, eins og er enn hjá flestum bændum, þá þarf heyið helzt að vera dálítið þurrt, áður en það er látið inn. Súgþurrkun hefur eigi að síður hjálpað ákaflega mörgum, og þeir voru ótrúlega margir sunnlenzku bændurnir og vestlenzku, sem björguðu sér með súgþurrkuninni í óþurrkunum í fyrra.

Rannsóknastofnun landbúnaðarins og bútæknideildin hafa annazt ýmiss konar tilraunir við þurrkun heys, og vitað er, að það eru margar aðferðir til í þeim efnum. Í sambandi við tilraunir Rannsóknastofnunar landbúnaðarins má geta þess, að á s.l. sumri var gerð tilraun að Reykhólum í Reykhólasveit á vegum Rannsóknaráðs ríkisins og rannsóknastofnunarinnar til að þurrka hey við jarðhita, og hefur þurrkunin farið fram í þurrkunartæki, sem hannað var hérlendis í þeim tilgangi. S.l. sumar voru einnig gerðar tilraunir með þurrkun grass í þurrkunartækinu, og unnu rannsóknaráð og bútæknideild að þeim sameiginlega. Niðurstöður þessara tilrauna munu liggja fyrir innan skamms. Tilraunir voru gerðar með nýtingu og varðveizlu fóðurefna heys við mismunandi súgþurrkunaraðstöðu í hlöðum. Niðurstöður munu væntanlega liggja fyrir síðar í vetur. Gerðar voru tilraunir varðandi tap fóðurefna við mismunandi meðhöndlun heys á þurrkvelli. Tilraunir voru gerðar með verkun grass og grænfóðurs til votheysgerðar í mismunandi gerðum votheysgeymslna. Var áherzla lögð á hinar svo nefndu flatgryfjur, sem eru nýjung hér á landi. Vinnurannsóknir voru gerðar varðandi notkun mismunandi tæknibúnaðar við öflun grass og grænfóðurs til votheysgerðar.

Það er ljóst, að Rannsóknastofnun landbúnaðarins, bútæknideildin eða Rannsóknaráð ríkisins hafa gert ýmsar tilraunir með verkun á heyi, og er sjálfsagt og nauðsynlegt, að það sé gert, svo þýðingarmikið sem það er að ná heyinu inn vei verkuðu. Ég hygg þó, að jafnvel þótt það fyndist einhver aðferð, sem væri heppilegri en þær, sem nú eru í notkun hjá bændum, þá tæki það nokkurn tíma að gera hana þannig úr garði, að allir bændur eða flestir gætu notað hana. Og enginn vafi er á því, að ódýrast væri fyrir bændur að nota þann búnað, sem þeir nú hafa við súgþurrkunina, með þeim hætti, að þeir gætu blásið heitu lofti í súgþurrkunarkerfið. Þá þyrftu þeir ekki að spyrja að því, hvort það væri þurrkur eða sólskin næsta dag. Þá gætu þeir undir flestum kringumstæðum hirt sín hey óhrakin og góð í hlöðu.