24.11.1970
Sameinað þing: 11. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 625 í D-deild Alþingistíðinda. (4314)

331. mál, heyverkunaraðferðir

Fyrirspyrjandi (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir þær upplýsingar, sem hann hefur gefið hér um þetta mál, en ég sakna þess, að mér fannst ekki koma nægilega skýrt fram hjá honum, hvert framhaldið ætti að verða í þessu máli. Mér fannst helzt, að hann liti þannig á, að málið væri í höndum bútæknideildar eða Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og þessir aðilar ynnu áfram að athugun á því. Ég er þeirrar skoðunar, að það væri full ástæða til þess, að ráðh. skipaði sérstaka nefnd manna, sem nokkurn fróðleik hefðu um þessi málefni, eins og verkfræðinga eða aðra slíka, sem tækju að sér að gera ítarlega athugun á þessum hugmyndum, sem fram hafa komið og hæstv. ráðh. minntist hér á, og þá einnig á þeim hugmyndum, sem fram hafa komið hjá bútæknideildinni. Ég gæti vel trúað því, að slík athugun gæti einmitt leitt það í ljós, hvort einhverjar af þeim hugmyndum, sem þarna hafa verið á ferðinni, gætu haft verulega þýðingu fyrir bændur. Hitt sýnist mér ekki hyggilegt að binda sig eingöngu við þær athuganir, sem bútæknideildin hefur haft með höndum.

Það er nú greinilegt, að þessir hugmyndasmiðir, sem nokkuð hafa látið heyra frá sér um nýjar heyverkunaraðferðir, eru engan veginn ánægðir með það, sem gert hefur verið í þessum efnum á Hvanneyri hjá bútæknideildinni, og af því sýnist mér vera full ástæða til þess, að með þessar hugmyndir verði farið á svipaðan hátt og gert er í ýmsum öðrum tilvikum, þegar um er að ræða till. um nýjar vinnsluaðferðir eða nýjar verkunaraðferðir, að nokkrir sérfróðir menn verði valdir í sérstaka nefnd, sem geri úttekt á því, sem fyrir liggur. Það er mín skoðun, að ekki eigi að una við það, að þetta liggi á þeim stað, sem það liggur nú.

Ég ætla mér ekki að leggja neinn dóm á það, hvers virði þessar hugmyndir eru. Ég hef heyrt, eins og hæstv. ráðh. sagði hér, að það væri látið mikið af því af ýmsum, að t.d. þessi heyverkunaraðferð, sem Benedikt Gíslason frá Hofteigi hefur einkum gengizt fyrir og mun vera frumkvöðull að, hafi gefizt vel í reynd, en ljóst var af því, sem hæstv. ráðh. las hér upp eftir bútæknideildinni á Hvanneyri, að hún vildi gera mjög lítið úr þessari aðferð Benedikts og taldi hana í raun og veru nokkurn veginn sömu aðferðina og hér hefur verið notuð áður undir nafninu súgþurrkun.

Ég endurtek þakkir mínar til hæstv. ráðh. fyrir þær upplýsingar, sem hann hefur gefið hér um málið, en vildi beina því til hans, hvort hann teldi ekki ástæðu til þess að fela þetta mái sérstökum mönnum í hendur til nákvæmari athugunar, og síðan yrði þá skýrt frá því, hverjar niðurstöður þeirra yrðu, og þar yrðu teknar líka til athugunar þær hugmyndir, sem fram hafa komið hjá bútæknideildinni á Hvanneyri, alveg eins og frá þeim einstaklingum, sem hér hafa verið nefndir í sambandi við hugmyndir varðandi þetta mál.