16.12.1970
Efri deild: 36. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 629 í B-deild Alþingistíðinda. (433)

170. mál, vegalög

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég má til með að leiðrétta þann meinlega misskilning, sem kom fram hjá hv. 5. þm. Reykn., þegar hann lét að því liggja, að í minni ræðu hefði það falizt, að ég fagnaði þessu frv. Það er nú alveg þveröfugt. Ég sagði í mínu máli einmitt, að þetta frv. væri sannarlega ekki fagnaðarefni. Ég sagðist að vísu mundu fylgja þessu frv. af illri nauðsyn. Ég sagði, að hvorugur þeirra kosta, sem fyrir hendi væru, væri góður, og margt fleira sagði ég í þeim dúr. Þess vegna er mér alveg ráðgáta, hvernig hann hefur fengið þann skilning út úr mínu máli. Ég vona, að það stafi af því, að hann hefur eitthvað truflazt af hávaða, sem kom annars staðar frá, á meðan ég var að tala hér í þessari hv. d., því að mér dettur ekki í hug að væna hann um það að hafa viljað fara skakkt með þetta, enda vitnaði hann orðrétt í önnur ummæli mín, sem hann hafði skrifað niður, þar sem mitt sjónarmið í þessu máli kom nokkuð glögglega fram. Hann hneykslaðist á því, hv. ræðumaður, að ég hafði sagt, að mér væri um og ó í þessu sambandi, en ég verð nú að segja eftir að hafa hlýtt á þá ágætu ræðu, sem hv. 5. þm. Reykn. flutti hér áðan, þá mundi ég segja frá henni á þá lund, að honum hefði verið um og ó. Ég heyrði hann aldrei lýsa því yfir, hvort hann væri með málinu eða á móti, hvort hann mundi greiða atkv. með þessu eða á móti. Nei, það er sannleikurinn, að það er hvorugur kosturinn góður í þessu máli.

Út af því, sem hv. 5. landsk. þm. sagði, þá álít ég rétt og vil taka undir það með honum, að það, sem hann setti hér fram, verði athugað í samgmn., og ég tel eðlilegt, að samgmn. fái auk vegamálastjóra til viðtals við sig fyrirsvarsmenn vöruflutningabifreiða, sem hafa sérstaklega sett fram kvörtun einmitt í sambandi við þá nýju innheimtuaðferð, sem tekin hefur verið upp á þessu gjaldi. Ég álít sjálfsagt að skoða þetta mál þannig, því að þó að það hafi verið samkomulag um að fylgja þessu máli í megindráttum, þá er það vitaskuld ekki á þann veg, að það megi ekki athuga ýmsar breytingar á þessu, ef unnt er að færa það til betri vegar.

Hitt er svo annað mál, að þegar hæstv. ríkisstj. kemur til stjórnarandstöðu og leitar samkomulags og samstöðu um eitthvert mál, þá gerum við gjarnan ráð fyrir því, án þess að það sé orðað sérstaklega, að stjórnarflokkamenn standi þar allir að, því að það gæti náttúrlega haft sína þýðingu fyrir framvindu mála, ef stjórnarflokkamenn fengju að leika lausum hala í málum eins og þessum. En ég vil segja það, að ég er alls ekki að halda því fram, að hæstv. samgrh. hafi neitt sagt um það, að allir stjórnarflokkamenn væru sammála um þetta mál — alls ekki, en ég gekk út frá því. Og ég vil segja það, að það verður maður náttúrlega að gera, þegar við mann er þannig talað, en ég geri ekki ráð fyrir því, að það hafi átt að skilja hv. 5. landsk. þm. þannig, að hann væri á móti málinu. (Gripið fram í: Ber að skilja þetta sem kvörtun um það, að það sé ekki nógur agi í stjórnarliðinu?) Það er ekki mitt að dæma um það. Ég hef ekkert um það að segja og læt það alveg lönd og leið, en að sjálfsögðu er mér það ekkert óánægjuefni, þó að agi sé þar ekki nægur.

En að lokum vil ég aðeins drepa á það, sem kom fram hjá hæstv. samgrh. og er náttúrlega stærsta atriðið í öllum þessum málum og við þurfum að athuga og ræða, og það er framkvæmdin í vegamálum og allt skipulagið á þeim málum. Það kann allt að vera í góðu lagi. Ég vil ekki dæma um það, en það er mjög mikil ástæða til þess að fylgjast með í þeim efnum. Og við höfum heyrt það, að það er ekki langt síðan, að hingað kom maður frá Ameríku og taldi sig geta gert vegina með allt öðrum og fljótari hætti en hér hefur verið gert. Ekki veit ég, hvort slíkt hefur við rök að styðjast. En það, sem ég vil undirstrika, er það, að við verðum að vera opnir í þessum efnum og læra af öðrum.