08.12.1970
Sameinað þing: 14. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 633 í D-deild Alþingistíðinda. (4331)

334. mál, vöruvöndun á sviði fiskveiða og fiskverkunar

Fyrirspyrjandi (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Eins og kunnugt er, hafa komið fram að undanförnu ýmsar kvartanir um skort á vöndun ýmissa sjávarafurða, sem seldar eru úr landi. Í því sambandi má minna á fiskstautamálið, sem nýlega var á dagskrá í Bandaríkjunum, og miklar skemmdir á saltfiskfarmi, sem fór til Ítalíu. Skortur á vöruvöndun virðist eiga sér stað á sviði fiskveiða og fiskvinnslu nokkurn veginn jöfnum höndum. Öllum má vera ljóst, að það er meginmál, að Íslendingar vandi sem bezt framleiðslu á útflutningsvörum sínum, og stefni jafnan að því að verða þar í fremstu röð. Til þess að bæta úr þeim ágöllum, sem hafa komið hér í ljós, eru til margar mismunandi leiðir, t.d. að geyma ísaðan fisk í kössum, meðan hann er í fiskiskipunum, veiða ekki neitt með netum, herða fiskmatið, auka menntun og þjálfun þeirra, sem starfa að fiskvinnslunni, og margt fleira mætti nefna. Í tilefni af þessu er spurt:

„Hvaða ráðstafanir hyggst ríkisstj. gera til aukinnar vöruvöndunar á sviði fiskveiða og fiskverkunar, og hvenær má vænta þess, að þær komi til framkvæmda?“