08.12.1970
Sameinað þing: 14. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 636 í D-deild Alþingistíðinda. (4334)

334. mál, vöruvöndun á sviði fiskveiða og fiskverkunar

Sjútvrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég skal ekki á þessu stigi við þessar umr. hér lengja mál mitt öllu frekar en ég hef gert. Það var aðeins út af þeim orðum hv. fyrirspyrjanda, að sá blær væri á þeim aðgerðum, sem þegar hafa verið gerðar, að ekki væri nægjanlega rösklega á eftir rekið, að ég stóð upp aftur. Ég hygg, að allir þeir möguleikar, sem rn. hefur í gegnum gildandi lagaákvæði, hafi verið fyllilega notaðir til þess að ýta á eftir sem örustum framförum í þessu efni, en maður verður stundum að doka við eftir því, að fólkið, sem á að vinna þessi störf, sé manni samferða og að samhugur sé ríkjandi á þeim vígstöðvum, sem málið snerta. Og ég tel þetta kærkomið tækifæri til þess að láta það í ljós, að ég skil vel t.d. viðhorf sjómanna, sem eiga við vondar aðstæður í misjöfnum veðrum um hávetur úti á sjó að raða fiski þar í kassa og ísa, eins og veðrátta hér við land er. Þeir telja til lítils barizt, ef ekki er greitt verulegt verð fyrir þá fyrirhöfn, sem þeir leggja þar á sig. Og ég hygg, að við fyrirspyrjandi séum sammála um þetta efni. En sá hængur hefur verið á, vil ég segja, að verðmismunur á 1. flokks ágætum fiski, sem komið hefur á land, þó að hann hafi verið ókassaður, sáralítill verðmunur er á honum og á hinum fiskinum, sem því miður er allt of mikið af, þ.e. fiski, sem fer í 2. og jafnvel 3. flokk. Ég held, að það tungumál, sem menn skilji bezt og er mannlegt og eðlilegt, að menn skilji á þann veg, sé það, að menn verða að fá eitthvað fyrir þessa fyrirhöfn. Þetta er tvímælalaust mjög erfitt við okkar aðstæður, sérstaklega hjá þjóð eins og okkur, þar sem kannske allt að því helmingur vetrarvertíðarfisksins berst á land á 1–11/2 mánuði. Þess á milli, bæði í upphafi vertíðar og við lok vertíðar, er þetta kannske ekki eins mikið vandamál, en einmitt í þessum aðalfiskihrotum mundi reynast töluvert erfitt að koma þessu við, og eðlilegt er, að menn krefjist einhvers fyrir þá fyrirhöfn. Ég tel því persónulega, að þarna eigi að gera mun meiri mismun en hingað til hefur verið gert á verði fyrir 1. flokks fisk annarsvegar og svo hinsvegar fyrir aðra gæðaflokka. Og þetta mál er eins og önnur, sem þurfa að þróast með okkur og við þurfum að læra að standa að, en höfum til þessa verið heldur fákunnandi í.

Hv. fyrirspyrjandi taldi námskeið að vísu góð. Ég held, að þau séu alveg bráðnauðsynlegur undanfari að því, sem hlýtur að koma, sem er fiskiðnskóli í landinu. En við fáum ekki nokkurn mann á Íslandi í dag til að setjast í fiskiðnskóla, án þess að fyrir fram sé ákveðið, hvaða réttindi sá maður á að fá að því námi loknu. Þetta þarf allt að athugast og þarf sinn nauðsynlega aðdraganda, sem ég held, að bezt gerist með þeim fiskiðnaðarnámskeiðum, sem bæði Fiskmatið og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins hafa sem betur fer nú í fyrsta sinn á s.l. ári getað sameinazt um og haldið undir einu og sama þaki.

Varðandi síðasta atriðið, sem hv. þm. minntist á, saltfiskfarminn til Ítalíu, sem skemmdist, þá reyndist höfuðsökin sem betur fer ekki vera hjá íslenzkum framleiðendum, heldur lágu mistökin í því, að skipið flutti þennan fisk á óhentugum árstíma og hafði ekki tilheyrandi kælitæki við að flytja fiskinn þarna niður eftir. Það kann að vísu að vera og er einnig mat þeirra manna, sem gerst til þekkja, að einhver hluti þessa skaða hafi stafað af því, að ekki var nógu vel frá fiskinum gengið og hann ekki nógu vel verkaður hér heima, en meginástæðan var þessi, að farmurinn var fluttur í óhentugu skipi á þeim tíma, sem erfiður er til flutnings slíks varnings á þeim slóðum, sem hann átti að fara til.