08.12.1970
Sameinað þing: 14. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 637 í D-deild Alþingistíðinda. (4337)

337. mál, afurðalán landbúnaðarins

Fyrirspyrjandi (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 2. þm. Sunnl., Ágúst Þorvaldssyni, að bera fram eftirfarandi fsp. til hæstv. landbrh.:

„Hvenær verða afurðalán í Seðlabankanum vegna landbúnaðarins hækkuð til samræmis við þær hækkanir, sem orðið hafa á búvöruverði síðan 1969?“

Á s.l. hausti hækkaði verðlagsgrundvöllurinn um 22%. Þegar hann hækkar svo mikið, er erfitt fyrir vinnslustöðvarnar að hækka útborgun á framleiðsluvörum landbúnaðarins sem þessari hækkun nemur, öðruvísi en að fá til þess lán eða hækkuð lán í sama hlutfalli, og sérstaklega er þetta erfitt hjá þeim mjólkursamlögum, þar sem mest af mjólkurmagninu fer í vinnslu. Nú er komið fram í desembermánuð, og svo að mér sé kunnugt um, hafa þessi lán ekki verið neitt hækkuð, en sama dag og fsp. var borin upp hér á hv. Alþ., 23. nóv., mun hins vegar hafa verið ákveðin hækkun á sumum sauðfjárafurðum, þ.e. dilkakjöti, geldfjárkjöti og ær- og hrútakjöti. En gærur standa í stað frá því á s.l. hausti og enn fremur garðávextir og allar sláturafurðir nautgripa, en hvort tveggja hefur þetta verið óbreytt a.m.k. síðan 1968. Mér er vel kunnugt um það, að vinnslustöðvarnar t.d. á Norðurlandi hafa ekki treyst sér til að hækka greiðslur til framleiðenda, vegna þess að þær hafa ekki fengið afurðalánin hækkuð til þessa. Þess vegna er þessi fsp. fram borin.