08.12.1970
Sameinað þing: 14. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 638 í D-deild Alþingistíðinda. (4338)

337. mál, afurðalán landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Spurt er um það, hvenær afurðalán í Seðlabankanum vegna landbúnaðarins verði hækkuð til samræmis við þær hækkanir, sem orðið hafa á búvöruverði síðan 1969. Það var talað um, að lán hefðu verið hækkuð út á sauðfjárafurðir sama dag og þessi fsp. var fram borin, og ætti þá að skilja það þannig, að fsp. hefði svona hnippt í menn og vakið þá, ef þeir hafa sofið á verðinum. Hv. fyrirspyrjandi getur þá verið ánægður með það, að fsp. hafi haft sina þýðingu, en ég held, að það sé nú rétt að geta þess, að venjan er, að afurðalánin séu ákveðin í nóvembermánuði og að þessu sinni hafi það ný verið svona nokkuð svipað og undanfarið. En þess ber að geta, að nýtt endurkaupsverð á sauðfjárafurðum er ákveðið á sama hátt og áður og tilkynnt af aðilum í nóv. Ég held, að það hafi verið gert áður en fsp. var fram borin, um svipað leyti og fyrir lá, hverjar yrðu birgðir þeirra afurða 31. okt. s.l. að lokinni sláturtíð. Það er venjan að bíða eftir birgðatalningu um mánaðamótin okt.–nóv., þegar sláturtíð er lokið, og þá eru afurðalánin ákveðin. Nemur hækkunin frá fyrra ári nærri 140 millj. kr. eða 23% á sauðfjárafurðir, sem er fyllilega það, sem verðhækkunin nam á s.l. hausti. Þá ber að geta þess, að sérstakt vandamál skapaðist vegna hinnar miklu birgðaaukningar á mjólkurafurðum, einkum smjöri, sem var langt umfram það, sem venjulegt má teljast, en allar þessar birgðir voru fram taldar, áður en grundvallarverð var ákveðið í sept. s.l. Ráðstafanir ríkisstj., sem leitt hafa til stórfelldrar lækkunar á verði á smjöri og ostum, munu hafa þau áhrif, að neyzla þessara afurða mun aukast, og má því gera ráð fyrir, að birgðir minnki nokkuð ört næstu mánuði. Endurkaupsverð á mjólkurafurðum hefur nú verið ákveðið og byggist á því verði, sem nú gildir, og nemur hækkun á útlánum vegna hækkunar á einingarverði um 26% eða fyllilega því, sem hækkunin nam á s.l. hausti. Auk þess kemur svo hækkun vegna birgðaaukningarinnar. Nemur hækkun frá fyrra ári alls 113 millj. kr. Heildarhækkun útlána Seðlabankans vegna landbúnaðarafurða frá því, sem var á fyrra ári, nemur því sem næst 253 millj. kr. Þess ber að geta, að enn hafa ekki verið hækkuð afurðalán út á kartöflur, en það er til sérstakrar meðferðar í Seðlabankanum nú, og talaði ég við Seðlabankann bæði í gær og aftur í morgun, og enn hefur ekki verið tekin ákvörðun um það. En ég geri mér vonir um, að hækkun út á kartöflur verði í samræmi við verðhækkunina, þannig að kartöflurnar fái svipaða afgreiðslu og aðrar búvörur. Og þegar þessi afgreiðsla er þá talin, þá er afgreiðslan sú, að Seðlabankinn lánar 55% af verðinu og viðskiptabankarnir 15%, þannig að afurðalánin samtals verða 70%.