16.12.1970
Efri deild: 36. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 631 í B-deild Alþingistíðinda. (434)

170. mál, vegalög

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður, 1. þm. Norðurl. v., sagði út af þeim fáu orðum, sem ég lét falla í hans garð eftir þá ræðu, sem hann hélt hér fyrr í dag, að ég hefði víst eitthvað truflazt í sambandi við hávaðann í flokksbróður hans í Nd. hér áðan. En það var held ég ekki. Mér fannst hins vegar ástæða til þess að vekja aðeins athygli á þeim einkennum ræðu hv. þm., hversu hann sveiflaði sér lipurlega fram og til baka ýmist yfir að hæstv. samgrh. til að vera fylgjandi málinu eða út á hinn kantinn til að vera svona næstum því á móti málinu, þannig að ég dáðist að þessum léttleika hans — hvernig hann sveiflaði sér þannig fram og til baka eins og Íslandsmeistari í stórsvigi.