08.12.1970
Sameinað þing: 14. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 641 í D-deild Alþingistíðinda. (4345)

338. mál, vaxtakjör Seðlabankans

Fyrirspyrjandi (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. viðskrh. svör hans við spurningu minni, en mér fannst svarið raunar ekki alveg tæmandi. Það kann að vera, og það er sjálfsagt rétt, að þetta er með þessu fyrirkomulagi, að viðskiptabankarnir reikna vinnslustöðvunum 7½% vexti og síðan er það þá sennilega Sambandið, sem er flutningsaðili, sem fær þetta endurgreitt síðar. En þá kem ég að öðru atriði í þessu sambandi. Kunningi minn rekur t. d. sútunarverksmiðju. Hann segir mér, að hann þurfi að borga 7½% og fái ekki endurgreiðstu aftur til baka. En í sambandi við sjávarútveginn, frystihúsin t. d. og vinnslustöðvar sjávarútvegsins, held ég og mér er tjáð, eru allir víxlar, sem Seðlabankinn kaupir, með 6% vöxtum. Það er ekki einungis sá, sem fiskar, heldur einnig sá, sem vinnur úr sjávaraflanum. Þarna er greinilegur munur á, ef þetta er rétt. Og þá komum við enn fremur að öðrum þáttum þessa máls, sem er alveg nákvæmlega það sama, og þess vegna óska ég eftir því, að hæstv. ráðh., ef hann getur það nú, skýri, hvernig þetta er, ef ég hef skilið þetta rétt.