15.12.1970
Sameinað þing: 17. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 649 í D-deild Alþingistíðinda. (4358)

332. mál, fiskiræktarmál

Fyrirspyrjandi (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. fyrir hans svör, sem ég tel eftir atvikum fullnægjandi, þó að ég hins vegar geti ekki lokið neinu sérstöku lofsorði, eftir að hafa heyrt þau svör, á það, hvernig á þessum mikilsverðu málum hefur verið haldið og hvern árangur þær viljayfirlýsingar, sem í þessum þál. felast, hafa borið um framkvæmdir stjórnvalda.

Það kemur fram í svari hæstv. ráðh., að það eina, sem raunverulega hefur gerzt í þessum málum varðandi þessar þrjár þál., er varðandi klakstöð á Norðurlandi. Þar hefur áætlun verið gerð, en endanleg athugun ekki farið fram, og er enn eftir sex ár bið á því, að endanlegri grg. ljúki. En þetta er sem sagt það jákvæðasta við hans svar, eftir því sem ég bezt fæ séð.

Varðandi fsp. um þál., sem fjallar um fræðslu í bændaskólum og ráðunauta í fiskrækt, er það að segja, að þrátt fyrir það að þessi þál. og viljayfirlýsing Alþ. er orðin tveggja ára, fer engin regluleg kennsla fram í bændaskólunum enn þann dag í dag. Ráðh. sagði að vísu, að kennsla hefði verið veitt í heilan áratug í bændaskólunum, að föst kennsla hafi verið hjá veiðimálastjóra í heilan áratug. Þetta held ég, að sé nú orðum aukið, sökum þess að það gefur auðvitað auga leið, að veiðimálastjóri hefur engin tök á því að annast fasta kennslu í bændaskólunum, hvorki á Hvanneyri eða Hólum. Hér er aðeins um það að ræða, að hann heldur einn eða tvo fyrirlestra árlega, og það getur auðvitað ekki talizt nein kennsla, sem geti orðið hagnýt fyrir bændaefni, þegar þeir taka við sínu búi og vildu fara að stunda þessa atvinnugrein með sínum búskap.

Varðandi almenna fræðslu Veiðimálastofnunarinnar, þá er það hið eina, sem kemur fram fyrir utan fyrirlestrahald veiðimálastjóra í bændaskólunum, að vísað er til einnar blaðagreinar, og verð ég nú að segja, að það getur ekki minna verið hjá stofnun, sem er ætlað að halda uppi almennri fræðslu og upplýsingastarfsemi um þessi mál. En hvort sem þar er um að ræða mannfæð, féleysi eða annað, þá er staðreyndin sú, að þessi stofnun veitir hvorki bændum eða öðrum neina teljandi fræðslu um þessi efni.

Ráðh. minntist ekki á annað í svari sínu, sem í þessari þál. fólst, en það var, að ráðunautar yrðu ráðnir í fiskrækt svo fljótt sem verða mætti. Á það minntist hann ekki, enda mun það mál eiga langt í land. Hins vegar er það vafalaust nauðsyn, ef þessi atvinnugrein á að geta þróazt sem búgrein.

Ég tel það athyglisvert, að eftir að sumar þessar ályktanir eru orðnar fjögurra ára gamlar og aðrar tveggja ára, þá er það svo, að enn þann dag í dag stundar enginn bóndi á Íslandi fiskeldi sem aukabúgrein með sínum aðalbúskap og enginn heldur alfarið sem atvinnu sína, á sama tíma sem nágrannaþjóðir okkar hafa byggt upp stórfellda atvinnugrein á þessu svíði. Hér er því mikið verk, sem er algerlega óunnið, og ég sætti mig ekki við þau svör hæstv. ráðh., að hér komi eintóm fákunnátta til og að við ættum ekki aðgang að neinni þekkingu um þessi mál. Við höfum við mikilsverða reynstu að styðjast erlendis, m. a. á Norðurlöndunum, ekki sízt í Danmörku, sem áreiðanlega getur komið okkur að góðu haldi, og einnig tel ég, að ef ekki væri legið á þeim árangri, sem náðst hefur í stöðinni í Kollafirði, gæti þar einnig verið ýmislegt, sem á mætti byggja. Ég tek það ekki sem fullgilda afsökun, að við höfum ekki enn þá hafið framleiðslu á hentugu fóðri fyrir laxfiska. Það er að vísu mikilsvert fyrir okkur að koma því máli í höfn og koma á innlendri fóðurframleiðslu fyrir okkar fiskrækt, en á það má benda, að þurrfóður er auðvelt að fá frá nágrannalöndum okkar og það við verði, sem ekki er neitt óhæfilegt, og væri vel hægt að hugsa sér, að reka mætti þessa atvinnugrein með innflutningi á erlendu fóðri, meðan íslenzkt fóður í hentugu formi er ekki tiltækt.

Sem sagt, mín niðurstaða af þessu svari er í stuttu máli sú, að ég tel, að það væri full ástæða fyrir hv. Alþ. að taka þessi mál sérstaklega til meðferðar og þá við hentugra tækifæri en í fsp.-tíma. Ég tel, að hér sé mörgu svo ábótavant og svo margt óunnið í þessum efnum, að við svo búið megi ekki öllu lengur standa.