15.12.1970
Sameinað þing: 17. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 651 í D-deild Alþingistíðinda. (4359)

332. mál, fiskiræktarmál

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi var nú ekki alveg ánægður með svarið eða svörin, og taldi, að mörgu væri ábótavant og seinagangur á ýmsu. Hann fullyrti, að nú færi engin kennsla fram í skólunum, bændaskólunum, í fiskirækt, enda þótt það sé vitað, að veiðimálastjóri hafi þar á hendi fræðslu, og veit ég ekki, hver ætti frekar að gera það en hann, því að sannleikurinn er nú sá, að enn þá höfum við haft anzi fáa menn, sem eru fróðir í fiskiræktarmálum hér á landi. Við vorum svo heppnir, að einn fiskifræðingur hafði lokið námi og meira að segja framhaldsnámi í Bandaríkjunum á þessu ári, og hann var strax fenginn til stofnunarinnar og er þar ráðinn fastur starfsmaður. Við erum einnig svo heppnir, að á miðju næsta ári útskrifast einn fiskifræðingur í Osló, og við höfum hugsað okkur að nota starfskrafta hans, þegar hann hefur lokið námi, og þannig held ég, að þetta verði að koma smátt og smátt, eftir því sem reynsla og þekking verður fyrir hendi. Og ég held, að það sé hollast fyrir okkur að flýta okkur mátulega hratt í þessu efni, um leið og við viðurkennum það, að þessi grein, fiskiræktin, er mjög mikilvæg fyrir okkur og það má ekki þar slaka á. En því síður eigum við að stíga feilspor í þessum efnum og hvetja t. d. bændur til þess að taka upp fiskirækt, á meðan ekki er hægt að leiðbeina þeim til fulls um það, hvernig þeir helzt eigi að haga sér við það, svo að það borgi sig, t. d. með fóðrun. Það má flytja inn útlent fóður, segir hv. þm., en betra er nú að taka það heima hjá sér, ef við höfum efnið í það og getum blandað það sjálfir, og eins og ég gat um, þá er nú unnið að því í Kollafirði að finna heppilegasta fóður til fiskiræktarinnar, sem fáanlegt er.

Eins og hv. þm. vildi ekki taka því með þökkum, hversu seint gengi í þessum málum, þá ætla ég ekki heldur að taka því með þökkum, að hv. þm. beri rn. eða stjórnvöldunum það á brýn, að á undanförnum árum hafi ekki verið unnið að þessum málum vel og ötullega. Það kemur í ljós, þegar þessi mál eru athuguð til hlítar, að við höfum stigið stórt skref til framfara í fiskiræktinni á s. l. árum, þrátt fyrir að við höfum haft fáa innlenda sérfræðinga til þess að styðjast víð, og fiskiræktarstöðin í Kollafirði er undirstaðan að fiskiræktinni. Þaðan á fróðleikurinn að koma til nota fyrir alla landsmenn, og þar er unnið ötullega að þessum málum. Það er þetta, sem ég vildi nú segja, því að hv. þm. talaði um það, að enn hafi ekki verið fengnir neinir ráðunautar til þess að gefa upplýsingar um þessi mál. Við höfum ekki fleiri sérfróða menn, sem við getum látið í þetta, en eru nú í starfi, og þessir sérfróðu menn, sem við nú höfum, eru hjá Veiðimálastofnuninni.

Enginn bóndi hefur enn tekið upp fiskirækt sem búgrein, segir hv. þm. Það er náttúrlega engum bónda bannað að gera það. En það hefur ekki enn þótt hyggilegt að hvetja menn til þess. Það er betra, að bændur og aðrir, sem þetta vilja gera, kynni sér málin til hlítar, áður en farið er að kasta peningum, sem ekki skila sér aftur, vegna þess að undirbúningurinn var ekki nógur.

Það er í rauninni ekki þörf á að segja meira í sambandi við þetta, en ég vil bara vekja athygli á því, að í sambandi við 1. lið fsp., a-liðinn, um aukabúgrein fyrir bændur, þá hefur þetta verið gert, sem ég áðan var að lýsa í sambandi við tilraunastöðina í Kollafirði, þ. e. að gera ýmsar tilraunir og gefa upplýsingar, sem hægt verður að byggja á, þegar fært þykir að taka þetta upp sem aukabúgrein og finna það heppilegasta fóður, sem fiskarnir þrífast bezt af og er um leið það ódýrasta, sem fáanlegt kann að vera.

Þá er það b-liðurinn, um fræðsluna í skólunum. Hv. þm. vill ekki viðurkenna það, að þessi fræðsla fari fram. Við því er ekkert að segja. Ef hv. þm. vill stangast við staðreyndirnar, þá er honum það ekki of gott, en flestir eða allir aðrir munu trúa því, sem hér hefur verið sagt, að veiðimálastjóri heldur uppi fræðslu í fiskirækt í búnaðarskólunum.

Um c-liðinn, þ. e. í sambandi við framkvæmd þál., sem samþ. var fyrir fjórum árum en ekki sex, um eldisstöð á Norðurlandi, þá var því lýst hér áðan, að veiðimálastjóri skilaði á s. l. sumri áliti um stofnkostnað og rekstrarkostnað slíkrar stöðvar. Og eftir að þetta álit veiðimálastjóra var komið, var það enn sent til athugunar, og von er á fullnaðargrg. um það mál seinna í vetur. Ég get ekki að því gert, þótt hv. þm. sætti sig ekki við þau svör, sem hér hafa verið gefin, og þótt hann heimti eitthvað meira og meiri hraða í fiskiræktarmálum heldur en orðið hefur. Ég læt aðra hv. þm. dæma um það, hvort hér hefur verið sæmilega að unnið eða ekki. Og ég hygg, að fáir hv. þm. verði á sama máli og hv. fyrirspyrjandi.