15.12.1970
Sameinað þing: 17. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 653 í D-deild Alþingistíðinda. (4364)

333. mál, Fiskiræktarsjóður

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Spurt er um væntanlegar tekjur Fiskræktarsjóðs á árinu 1971. Tekjur sjóðsins munu væntanlega verða 2.5–3 millj. kr. Í fjárlagafrv. fyrir árið 1971 er gert ráð fyrir 700 þús. kr. til greiðslu á ógreiddum fiskræktarstyrkjum og 1 millj. kr. til Fiskræktarsjóðs. Þá má gera ráð fyrir tekjum af vatnsaflsstöðvum vegna sölu á orku og af veiðitekjum á árinu, en það er aðeins fyrir hálft árið, salan af orkunni. Það gæti orðið ca. 1 millj. kr., ég veit það ekki nákvæmlega enn. En þetta verður innheimt fyrir seinni hluta ársins. Tekjurnar verða vitanlega talsvert hærri á árinu 1971, því að þá verður innheimt fyrir fullt ár, og mætti ætla, að það yrðu þá 3½–4 millj. kr. með sömu upphæð á fjárlögum.

Þá er spurt um, hve mikil lán verði hægt að veita úr sjóðnum á árinu 1971. Þessu er nú ekki hægt að svara alveg til fulls, því að það eru talsverðar skuldir, sem er eftir að greiða út á styrkhæf mannvirki. Fjárveitingin að undanförnu hefur ekki verið nema 700 þús. kr., eins og þið vitið, og þess vegna er það, að það hefur myndazt nokkur hali. Ég get ekki svarað því nákvæmlega, hvað hann er mikill, en miðað við það, að þessar 700 þús. kr. væru notaðar í styrki, en annað, sem Fiskræktarsjóður hefur, til lána, þá mætti ætla, að hægt væri að lána á næsta ári um 2 millj. kr., og víst er það, að þeir, sem hafa að undanförnu ráðizt í framkvæmdir, hafa alltaf reiknað með því, að það yrði nokkur bið á því, að styrkurinn yrði greiddur að fullu, þannig að ég geri ekki ráð fyrir því, að neitt verði breytt til um það í þetta sinn, það verði þá látið bíða í 1–2 eða jafnvel 3 ár að ljúka þeim styrkveitingum, sem ætti að greiða út á mannvirki, sem lokið hefur verið við. Þá er og gert ráð fyrir því, að stofnlánasjóður veiti lán út á fiskiræktarmannvirki svo og út á íbúðarhús, sem reist eru hjá eldri stöðvum.

Það er enginn vafi á því, að það verður geysileg breyting til bóta í sambandi við Fiskræktarsjóðinn frá því, sem áður var, þegar enginn Fiskræktarsjóður var til. Nú verða Fiskræktarsjóði tryggðar fastar tekjur. Það er vitanlega aldrei hægt að fullyrða, hversu mikið verður veitt á fjárlögum, en í fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir, er það 1 millj. kr. Vonandi verður talið fært síðar meir, ef ekki nú, að hækka þessa fjárveitingu. Og með aukinni orkuvinnslu og orkusölu verða tekjur sjóðsins vitanlega meiri eftir því sem frá líður og einnig af veiðitekjum. Enginn vafi er á því, að það var fullur skilningur á þessu hér í hv. Alþ., þegar verið var að samþykkja lögin í fyrra um lax- og silungsveiði, og menn lögðu mikið upp úr því að stofna Fiskræktarsjóð, þótt ekki væri með stórri upphæð fyrst. Það var vitanlega ákaflega þýðingarmikið spor, að Fiskræktarsjóður var stofnaður, og ef hann hefur á fyrsta ári 2½–3 millj. kr. til ráðstöfunar, á öðru ári 4 millj., þá er hér vitanlega strax orðin á stór breyting og enginn vafi á því, að Fiskræktarsjóður verður fljótt og á eftir að verða mikill aflgjafi fyrir fiskræktina í landinu.