15.12.1970
Sameinað þing: 17. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 654 í D-deild Alþingistíðinda. (4365)

333. mál, Fiskiræktarsjóður

Fyrirspyrjandi (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svör hans, en samkv. þeim skildist mér, að tekjur Fiskræktarsjóðs verði á þessu ári 2.5–3 millj. kr. og á næsta ári 3–4 millj. kr. Það skal fullkomlega viðurkennt, að hér er stigið spor í rétta átt, en hins vegar held ég, að allir hljóti að viðurkenna það, að fyrir þessar fjárhæðir verður ekki hægt að gera neinar stórframkvæmdir í þessum efnum, sem þó er nauðsynlegt, ef fiskræktin og fiskeldið ættu að komast í það horf, sem vera ætti, og þess vegna hljóti það að teljast eitt af meiri háttar verkefnum í framtíðinni að vinna að því, að tekjur Fiskræktarsjóðs verði auknar og auknu fjármagni á annan hátt varið til þessarar atvinnugreinar.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um þetta mál nú að sinni, aðeins árétta það, að þó að hér sé stigið spor í rétta átt, þá tel ég, að það þurfi að gera betur í þessum efnum og sérstaklega verði að taka það til athugunar, hvort ríkið eigi ekki að verja meira fjármagni til þessara hluta heldur en 1 millj., eins og gert er ráð fyrir í fjárlögum næsta árs.