15.12.1970
Sameinað þing: 17. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 654 í D-deild Alþingistíðinda. (4369)

335. mál, ísingarhætta

Fyrirspyrjandi (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. á þskj. 171. Sú fsp. er í tveimur liðum og er svo hljóðandi:

„1. Hefur ríkisstj. nokkrar varúðarráðstafanir gert vegna sérstakrar sjóslysahættu fyrir Vestfjörðum, sökum ísingarhættu og snöggra veðrabrigða að vetri til?

2. Ef svo er, í hverju eru þær ráðstafanir þá fólgnar?“ Svo sem öllum þingheimi er kunnugt, hafa þeir sorgaratburðir gerzt ár eftir ár, að fleiri eða færri fiskiskip hafa farizt fyrir Vestfjörðum í snöggum áhlaupsveðrum að vetrinum, og er það sammæti þeirra, sem bezt þekkja til, að aðalslysavaldurinn þarna á þessu svæði, sem er eitt háskalegasta svæðið við íslenzku ströndina, sé ísingin, ísingarhætta, ísing, sem leggst þarna á reiða skipa og skipin sjálf miklu fremur en nokkurs staðar annars staðar við Íslandsstrendur. Þegar seinasta sorgarfregnin barst hingað um sjóslys fyrir Vestfjörðum, var þetta mál rætt, og allir voru auðvitað á einu máli um það, að leggja bæri heilann í bleyti til að finna úrræði, sem hægt væri að grípa til til þess að draga úr þessum yfirvofandi háska. Gaf ríkisstj. góð fyrirheit um það, að hún mundi leita slíkra úrræða. Þá um sinn höfðu Bretar tekið upp þann hátt til verndar sínum fiskiskipum á þessum slóðum að hafa skip hér norður af Íslandi til þess að gefa þeim sérstakar leiðbeiningar um veðurútlit, og nokkurt vald hefur þetta skip haft til þess að skipa fyrir um það, hvernig skipin skyldu haga sér við veiðarnar, einkanlega með tilliti til slysahættu af veðrum. Þetta virðist hafa gefizt vel hjá Bretum, og hafa Íslendingar gefið þessu auga, og vestfirzkir sjómenn hafa haft orð á því við mig, að það væri jafnvel athugandi, hvort ekki væri rétt að leita samninga við Breta um það að hafa veðurfræðing um borð í skipi þeirra, ef samningar gætu tekizt um slíkt, til þess að nýjar, áreiðanlegar fregnir um veðrabrigði norður í hafi berist til sjómannanna víðstöðulaust, jafnskjótt og brezku sjómennirnir fá sínar aðvaranir. Mér dettur í hug, að hægt væri að leita þeirra úrræða að fela varðskipum þeim, sem gæzlu annast fyrir okkur, að annast slíka þjónustu, og þó detta mér öllu fremur í hug fiskirannsóknarskip okkar, sem oft munu halda sig einmitt að vetrinum norður við ísröndina við Grænland og á þeim slóðum einmitt, þar sem fyrst verður veðrabrigða vart, og á þeim fiskimiðum, sem við þurfum einmitt að leiða hugann að í þessu sambandi. Nú erum við að fá annað fiskirannsóknarskip í víðbót við það, sem við höfum. Bjarni Sæmundsson er í þann veginn að koma og hefja störf í viðbót við Árna Friðriksson, og væri athugandi, hvort ekki væri hægt að leysa þetta mikla vandamál með sérstökum fyrirmælum, sérstökum starfsþætti í annars þýðingarmiklu starfi þessara skipa.

Fsp. skýrir sig sjálf, og ég vænti þess, að hæstv. ríkisstj. hafi gefið þessu máli auga, frá því að það var hér síðast rætt, og við fáum vitneskju um það, til hvaða aðgerða hefur verið gripið.