26.01.1971
Sameinað þing: 22. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 663 í D-deild Alþingistíðinda. (4383)

157. mál, gengistöp hjá Fiskveiðasjóði

Fyrirspyrjandi (Björn Pálsson):

Herra forseti. Ég reikna ekki með, að hæstv. ráðh. hafi samið þessa skýrslu, heldur hafi einhver annar samið hana. En þarna er sagt berum orðum, að þessu hafi verið jafnað niður á alla lántakendur eins og ráðh. las þetta upp. Hann hlýtur að gera þetta að sínum orðum með því að lesa þetta upp og taka ábyrgð á því, að þetta sé rétt. En okkur var öllum afhent í fyrra skýrsla, þar sem það er tekið fram af framkvæmdastjóra sjóðsins og bókhaldara, það er tekið nákvæmlega fram, hverjir borga þetta og hve miklu er jafnað niður, og það er mikill minni hluti af lánunum. Og svo segir ráðh., að þessu sé jafnað niður á alla jafnt. Þetta eru hrein ósannindi. Að sjóðsstjórnin skuli leyfa sér að afhenda ráðh. svona plagg til upplestrar! Hvað ætti Bretar segðu við þessu? Þetta er mórallinn í bankakerfinu. Lesið þið bara skýrsluna, sem Elías Halldórsson afhenti í fyrra. Lesið þið hana bara. Og svo segir ráðh. hér, að þessu sé jafnað niður á alla jafnt, þegar allir, sem hafa ógengistryggðu lánin, borga ekki einn einasta eyri. Og það er meira en í þetta skipti. Þetta er um alla framtíð. Hinir, sem hafa þessi gengistryggðu lán, verða að borga fyrir hina. Þarna er í fyrsta lagi framið lögbrot, í öðru tagi eru borin fram hrein ósannindi og það í þinginu. Ráðh. hlýtur að bera ábyrgð á því, sem hann les upp, þó að það sé rangt. Hann hlýtur að bera ábyrgð á sínum starfsmönnum. Lesið þið bara skýrsluna, sem þið hafið. Það er atveg glöggt tekið fram, á hvaða upphæð er jafnað niður gengistapinu, og það er minni hluti af lánunum. Þetta er dálítið alvarlegt. En ég skil þetta þannig, að ríkisstj. ætli ekkert að gera í málinu. Það verði þess vegna að höfða mál. En jafnvel þó að hún ætli ekkert að gera, þurfa ráðherrar ekki að bera fram ósannindi. Þeir eru sjálfir búnir að leggja fram svörin við þessu með skýrslunni í fyrra.