18.12.1970
Efri deild: 38. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 638 í B-deild Alþingistíðinda. (439)

170. mál, vegalög

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég vil þakka meiri hl. hv. samgmn. fyrir afgreiðslu málsins. Hv. 6. þm. Sunnl. hefur skilað séráliti og gert hér grein fyrir því, hvað það er, sem hann finnur frv. til foráttu, og það er aðallega það, að honum finnst óeðlilegt að samþykkja þetta frv., þar sem verðstöðvun hefur verið lögfest. Um þetta ræddi ég hér við l. umr. málsins og eiginlega um alla þá punkta, sem hv. 6. þm. Sunnl. dvaldi við, og sé ég því ekki ástæðu til þess að fara að orðlengja þetta hér. Í nál. hv. meiri hl. segir, að meiri hl. n. mæli með því, að frv. verði samþ. í trausti þess, að með reglugerðarbreytingu megi hamla gegn hækkun kílómetragjaldsins í þeim tilvikum, þar sem hún yrði tilfinnanlegust. Þessu var lýst af hv. frsm. meiri hl. og jafnframt því, að rætt hefði verið við vörubílstjóra um þetta og komið hefðu mótmæli og kvartanir frá þeim. Ég hef einnig rætt við stjórn Landssambands vörubifreiðastjóra um þetta mál og mun gera það aftur. Var það allt illindalaust og í góðum tón, og virtist mér, að bifreiðarstjórarnir hefðu nú skilning á þörfum Vegasjóðs og þeir gætu, þegar frá liður, notið þess, ef vegirnir yrðu betri en þeir annars yrðu. En eins og fram hefur verið tekið, var miðað við 30 þús. km akstur árlega á dísilbifreiðum, áður en mælagjaldið kom til, og eftir að mælarnir voru settir í, var miðað við það, að tekjur Vegasjóðs yrðu hinar sömu og þær áður voru og reglugerðin miðuð við það. En nú er það öruggt, að margir munu aka talsvert meira en 30 þús. km. Það hafa verið nefndir 60–80 þús. km, og þá er því ekki að neita, að það verður mikið, sem þeir eiga að borga í skatt, ef gjaldið verður það sama, hversu mikið sem þeir aka. Þegar þetta frv. var í smíðum, ræddi ég við ráðuneytisstjórann um þetta mál, og hann taldi þá öruggt, að það mætti, ef mönnum sýndist svo, ákveða í reglugerðinni að lækka gjaldið, þegar akstur væri kominn upp að vissu marki, og er það í samræmi við það, sem hv. frsm. meiri hl. sagði hér áðan. Það mundi milda þetta mál gagnvart vörubifreiðastjórunum, ef þetta væri gert. Og í tilefni af því vil ég segja það hér, að ákveðið verður með reglugerð, sem gefin verður út, að gefa afslátt af þungaskatti á dísilbifreiðum með 5 tonna öxulþunga eða meira, þegar árlegur akstur fer yfir 30 þús. km. En hversu mikill afslátturinn verður, get ég ekki ákveðið nú. Þetta verður að vega og meta. Auðvitað missir Vegasjóður nokkrar tekjur við það og óvíst, að sú upphæð náist, sem hér er reiknað með, en það verður þá að ýta því á undan sér, og eins og fram kemur í frv., er ætlazt til, að nokkur varasjóður myndist fyrir árið 1972, þar sem tekjuþörfin samkv. bráðabirgðaáætluninni sýnist vera minni 1972 en 1971.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja þetta meira. En ég vildi taka þetta fram, að með reglugerð, sem út verður gefin, verður ákveðið að gefa afslátt, þegar akstur hefur orðið yfir 30 þús. km. Hvort það verður haft í tveimur þrepum eða einu, t. d. að afslátturinn sé minni meðan akstur er undir 50 þús. km, en meiri, eftir að komið er yfir 50 þús. km, það get ég ekki sagt um nú, en mér skilst, að það sé aðalatriðið, að þetta verður ákveðið til þess að koma til móts við vörubifreiðastjóra.