26.01.1971
Sameinað þing: 22. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 667 í D-deild Alþingistíðinda. (4394)

341. mál, endurvarp sjónvarps frá Reykhólum

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Samkv. upplýsingum frá útvarpsstjóra eru nokkrir bæir á Skarðsströnd og við Reykhólafjall, þar sem móttökuskilyrði sjónvarps eru ekki fyrir hendi. Komið hefur verið upp til bráðabirgða endurvarpsstöð í Króksfjarðarnesi, en ætlunin er að leggja þá stöð niður og reisa endurvarpsstöð á Reykhólum. Áætlaður stofnkostnaður hennar er 3.6 millj. kr. Þessi stöð mun þó ekki ná til allra bæja, sem nú eru sjónvarpslausir á þessum slóðum. Útvarpsstjóri kveður á þessu stigi ekki hægt að segja, hvenær stöðin verði reist, þar sem endanlega hefur ekki verið gengið frá áætlunum um byggingu nýrra endurvarpsstöðva á næsta ári. Verður ekki unnt að ganga frá slíkum áætlunum, fyrr en fjárlög fyrir það ár hafa verið afgreidd og séð, hvaða fjárveitingar verða til umráða í þessu skyni.

Eins og kunnugt er, er unnið að því af kappi að reisa endurvarpsstöðvar sjónvarps út um land allt, og hefur því verki miðað áfram langt umfram vonir bjartsýnustu manna. Í svo víðáttumiklu og fjöllóttu landi sem Íslandi mun að sjálfsögðu taka alllangan tíma og kosta mikið fé að koma upp fullkomnu sjónvarpskerfi, er nái til innstu dala og yztu nesja. Áætlun um þetta efni er í höndum sérfræðinga, og fer röðun verkefna eftir málefnalegu mati og sérfræðilegri könnun þeirra í hverju tilviki.