26.01.1971
Sameinað þing: 22. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 667 í D-deild Alþingistíðinda. (4395)

341. mál, endurvarp sjónvarps frá Reykhólum

Fyrirspyrjandi (Jónas Árnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh, svör hans. Ekki get ég þó sagt, að mér líki þau alls kostar. Ég tók svo eftir, að það væri ekki einu sinni vissa fyrir því, að endurvarpsstöðin á Reykhólum kæmist upp á næsta ári. Ég hygg, að þetta valdi vonbrigðum eigi litlum þarna fyrir vestan, því að mér skilst, að fólki þar hafi verið lofað þessari endurvarpsstöð á þessu ári, og það, sem ég vildi fá fram í þessari fsp., var nú eiginlega það, hvenær á árinu mætti búast við þessari sjónvarpsstöð, þessari endurvarpsstöð. Ég læt í ljós harm minn út af þessu.

En ég ætla að leyfa mér að bæta við einni fsp., sem mér láðist að beina til hæstv. ráðh. áðan og ætlaði þó að gera það í sambandi við þetta mál. Þannig stendur á með einn skólann þarna fyrir vestan, einn skólann á Vesturlandi, Laugaskóla í Dölum, að þar skyggja á hólar, þannig að skilyrði til þess að ná sjónvarpi í Laugaskóla eru mjög slæm, og þar með að sjálfsögðu engir möguleikar í þessum skóla til þess að njóta þeirrar fræðslu, þess skólasjónvarps, sem nú er hafið hér á landi, að vísu allt of lítið enn og sjónvarpið síður en svo notað til þeirrar fræðslu, sem hægt væri að nota það. Það vill svo til, að hér á þingi situr sá maður, sem er í forsvari fyrir skólasjónvarp og aðra slíka fræðslu, og hann gæti e. t. v. upplýst um þetta: Hvað líður sjónvarpi til þeirra í Laugaskóla?