26.01.1971
Sameinað þing: 22. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 669 í D-deild Alþingistíðinda. (4398)

341. mál, endurvarp sjónvarps frá Reykhólum

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki blanda mér inn í umr. um sjónvarpsskilyrði á Vesturlandi né hvað þar sé þörf að gera til úrbóta. Ekki heldur að rekja raunir annarra landshluta eða ýmissa svæða innan míns kjördæmis í þessum efnum. Það er aðeins ein ábending, sem ég vildi láta koma fram, úr því að þessi mál eru hér á dagskrá. Mér virðist, að þörf sé á að taka til athugunar í sambandi víð framkvæmdir á vegum sjónvarps, hvort ákvarðanir um framkvæmdir séu teknar nægilega tímanlega á hverju ári. Ef dregst mjög að taka ákvarðanir um framkvæmdir hvers árs, þá er það svo, að þegar ákvarðanir loks eru teknar, er eftir að panta efni, það er eftir að bjóða út verk eða ráða vinnuflokka til þess að taka að sér verkið, og þau vilja dragast fram eftir ári, eins og reynslan hefur oft og tíðum sýnt. Þó að ákveðið hafi verið að koma einhverju verki af t. d. fyrir jól, vilja þau iðulega dragast úr hömlu og komast ekki af á tilsettum tíma. Það segir sig sjálft, að framkvæmdir sem þessar að vetrarlagi eru mun dýrari, stundum jafnvel tvöfalt dýrari en ef tækist að vinna þær að sumri eða hausti, meðan tíð er sæmilega góð. Ég skal ekki hafa um þetta öllu fleiri orð, en þessu til stuðnings má minna á, að enn er ekki lokið við endurvarpsstöðvar, sem verið er að reisa um þessar mundir á Hnjúkum við Blönduós og á Hrútafjarðarhálsi. Slíkar framkvæmdir að vetrarlagi eru ákaflega erfiðar og dýrar. Það mundi spara sjónvarpinu mikið fé, sem þýddi um leið það, að meiri framkvæmdir og hraðari yrðu unnar, ef ákvarðanir um árlegar framkvæmdir á vegum sjónvarpsins yrðu teknar það tímanlega, að þær gætu komizt af, meðan tíð er sæmileg, svo að ekki þyrfti að brjótast í þessu um hávetur.