26.01.1971
Sameinað þing: 22. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 672 í D-deild Alþingistíðinda. (4406)

166. mál, hraðbraut í gegnum Kópavog

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Í reglugerð nr. 44 8. marz 1965 um þjóðvegi í kaupstöðum og kauptúnum, sem sett er samkv. ákvæðum 30. gr. vegalaga nr. 71 30. des. 1963, segir, að eftirtaldir vegir og götur í Reykjavík og Kópavogskaupstað skuli teljast þjóðvegir samkv. 30. gr. vegalaga: Í Reykjavík: Miklabraut frá vegamótum Elliðavogs, Hringbraut og Eiðsgrandi að mörkum Seltjarnarneshrepps, Kringlumýrarbraut frá Fossvogslæk að Sætúni við Kirkjusand, Sætún að Laugarnesi, Kleppsvegur og Elliðavogur að Miklubraut vestan Elliðaáa. Í Kópavogi: Hafnarfjarðarvegur frá Fossvogslæk að Kópavogslæk. Þessi reglugerð var sett í samræmi við þá flokkun þjóðvega, sem tilgreind er í vegáætlun fyrir 1964. Var við samningu reglugerðarinnar leitað álits hlutaðeigandi sveitarstjórna og skipulagsnefndar ríkisins um mörk þjóðveganna samkv. 30. gr. vegalaga, og var skipulagsnefnd ríkisins, sem kvödd var til ráða, samdóma um, að þetta væru hin eðlilegu mörk. Auk þeirra atriða, sem tilgreind eru í tölulið 1–3 í 30. gr. vegalaga, var meginreglan sú, að mörk þjóðvega samkv. 30. gr. vegalaga voru sett við yztu byggð í hlutaðeigandi kaupstað eða kauptúni.

Síðan þessi reglugerð var sett, hefur það gerzt, að hinn 16. marz 1966 var auglýst sú breyting að því er varðar Hafnarfjarðarveg í Kópavogi, að suðurmörkin voru flutt frá Kópavogslæk að Hlíðarvegi, en við það styttist þjóðvegurinn um Kópavogskaupstað um 20%. Bæjarstjórn Kópavogs taldi þetta ákaflega mikið atriði, að mörkin voru færð sem þessu nemur. Í vegáætlun fyrir árin 1965–1968 var Reykjanesbraut frá Elliðaám austan Kópavogs til Hafnarfjarðar tekin í þjóðvegatölu, en vegáætlun var samþ. á Alþ. 2. apríl 1965. Af þessu leiðir, að Vegasjóður hefur greitt kostnað við lagningu Reykjanesbrautar, og var á árunum 1967 og 1968 varið um 8 millj. kr. til undirbyggingar vegarins frá Blesugróf að Breiðholtsbraut samkv. framkvæmdaáætlun ríkisstj. fyrir þau ár og heimild í vegáætlun. Reykjavíkurborg hefur hins vegar kostað þær malbikunarframkvæmdir á Reykjanesbraut frá og um Blesugróf að Breiðholtsbraut, sem unnið hefur verið að í ár.

Samkv. vegáætlun hefur Vegasjóður kostað allar framkvæmdir við Vesturlandsveg frá miðju vegbrúarinnar á Miklubraut, um Elliðaárdal, Ártúnsbrekku og að Höfðabakka og enn fremur þær framkvæmdir við Reykjanesbraut frá Elliðaám að Breiðholtsbraut, sem unnið var að á árunum 1967 og 1968, en ekki framkvæmdir, sem unnið hefur verið við í þessum vegi á þessu ári.

Miðað við þær meginforsendur, sem lágu til grundvallar ákvörðun þjóðvegamarka í reglugerð nr. 44 frá 1965, er til athugunar nú að breyta þjóðvegamörkum á aðalvegunum út frá Reykjavík, þar sem byggzt hafa stór bæjarhverfi í Árbæ og Breiðholti utan þeirra marka, sem þá voru sett. Verður skipulagsnefnd ríkisins enn kvödd til ráða um það, hvar heppilegt eða hæfilegt þyki að draga þessi mörk. Þá bendir og reynslan af lagningu Hafnarfjarðarvegar um Kópavog ótvírætt til þess, að ákvæði 34. gr. vegalaga 1963 séu ekki nægjanleg til þess að leysa þann vanda, sem til var ætlazt, við mjög dýrar vegaframkvæmdir á þjóðvegum í kaupstöðum og kauptúnum. Þurfi því annaðhvort að endurskoða þau ákvæði eða leita annarra úrræða.

Fulltrúar úr bæjarstjórn Kópavogs hafa komið nokkrum sinnum til viðræðna um þessi mál í rn. En eins og kunnugt er, var gerður samningur við bæjarstjórn Kópavogs um lagningu þessa vegar með ákveðnum stuðningi frá Vegasjóði og lánsútvegun með aðstoð ríkisstj. Það hefur því komið til greina að færa enn mörkin til til þess að létta undir með Kópavogskaupstað. Breytingin á reglugerðinni 1966, sem áður var vitnað til, var gerð eftir ósk bæjarstjórnar Kópavogs, og samningur, sem bæjarstjórn Kópavogs hefur gert við samgrn., var gerður af fúsum vilja af beggja hálfu. Nú kemur til greina að færa mörkin frá Hlíðarvegi að Digranesvegi. Verður það veruleg stytting á veginum, sem Kópavogi var ætlað að sjá um áður, og er Kópavogskaupstað mjög í hag. Hitt er svo alveg ljóst, að það er ofviða Kópavogskaupstað að binda þéttbýlisféð mjög langt fram í tímann og leggja að auki fram fé frá íbúum kaupstaðarins, til þess að ljúka þessari vegagerð. Það er með þessar staðreyndir í huga, sem nú er verið að athuga í samráði við fulltrúa bæjarstjórnar Kópavogs, hvernig eigi að leysa þetta mál, án þess að það verði of þungt eða að það verði að nokkru leyti hægt að segja, að það sé ósanngjarnt í garð íbúa Kópavogskaupstaðar.